Meydómur 600 þúsund króna virði

Þarna blómstrar ástin í Brasilíu.
Þarna blómstrar ástin í Brasilíu. AFP

Rétturinn til meydóms á að vera lögverndaður og sé kona svipt honum með blekkingum verður að greiða fyrir það bætur. Þetta er niðurstaða dómstóls í kínversku borginni Sjanghæ sem nýverið dæmdi karlmann til að greiða konu jafnvirði 600 þúsund króna fyrir að fá konu til fylgilags við sig með blekkingum.

Chen kynntist Li á netinu árið 2009 og hófu þau að hittast fjórum árum síðar. Það var þá sem þau höfðu samræði en eftir ástarfund hætti maðurinn, Li, að hafa samband við Chen. Hún sætti sig ekki við það, leitaði hann uppi og bankaði upp á. Varð henni þá ljóst að Li var giftur maður.

Þetta taldi Chen hina mestu svívirðu enda hafi Li verið fyrsti maðurinn sem hún sængaði með og fannst því sem hann hefði brotið gegn henni. Chen höfðaði því mál gegn Li og bar við að hann hefði með blekkingum um að hann væri einhleypur og vildi samband svipt hana meydómnum. Chen krafðist jafnvirði tíu milljóna króna í miskabætur.

Dómari komst að þeirri niðurstöðu að Chen ætti rétt á bótum vegna blekkingar Li en taldi kröfu hennar full háa. Var Li dæmdur til að greiða henni jafnvirði 600 þúsund króna. Li hefur þegar ákveðið að áfrýja dómnum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert