Ríki íslam birtir nýtt myndskeið

Ríki íslam hefur hótað að myrða Bretann Alan Henning, sem …
Ríki íslam hefur hótað að myrða Bretann Alan Henning, sem sést í myndskeiði sem var birt um sl. helgi. Nýtt myndskeið var birt í dag og er það ólíkt þeim fyrri. AFP

Búið er að birta nýtt myndband sem sýnir breskan karlmann í haldi liðsmanna samtakanna Ríkis íslams. Samtökin hafa þegar myrt þrjá gísla, tvo Bandaríkjamenn og einn Breta, og hótað að taka Bretann Alan Henning af lífi.

Fram kemur á vef BBC, að Henning, sem er 47 ára gamall, hafi sést í lok myndbands sem sýnir þegar breski hjálparstarfsmanninn David Haines af lífi. Myndbandið var birt sl. laugardag. 

Í nýjasta myndskeiðinu sést aftur á móti annar breskur maður sem segist vera fangi samtakanna. Fram kemur að myndskeiðið sé ólíkt fyrri myndskeiðum sem hafa verið birt og þá er enginn tekinn af lífi í því, en samtökin hafa afhöfðað mennina þrjá sem nefndir voru hér að ofan. 

Í myndskeiðinu sést engin liðsmaður Ríkis íslams, en yfirskrif þess er „Ljáið mér eyra“ og er beint að almenningi á Vesturlöndum.

Maðurinn virðist vera klæddur í appelsínugulan fatnað og hann talar beint í myndavélina sitjandi við borð. Hann segir að stjórnvöld í Bretlandi og í Bandaríkjunum hafi yfirgefið sig og aðra og spyr hvers vegna þau séu svo áhugasöm um að hefja nýtt stríð. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert