Ríki íslams, ISIS, ISIL eða Daesh?

Fjölmenni fyrir utan Hvíta húsið þar sem hvatt er til …
Fjölmenni fyrir utan Hvíta húsið þar sem hvatt er til friðar í Kúrdistan. Vígamenn samtaka herskárra íslamista hafa herjað á svæði Kúrda undanfarin misseri. AFP

Ríkisstjórnir og fjölmiðlar hafa átt í vandræðum með hvað kalla eigi samtök herskárra íslamista, sem hafa farið eins og eldur um sinu í Sýrlandi og norðurhluta Íraks. Frakkar hafa ákveðið að taka af skarið og nota nafn um samtökin sem liðsmenn þeirra eru sagðir hata: Daesh.

Mikil óöld hefur fylgt þessum samtökum hvert sem þau fara, sem hafa birt myndbönd af því þegar þeir afhöfða vestræna blaðamenn, auk þess sem liðsmenn þeirra hafa drepið fjölda óbreyttra borgara í Mið-Austurlöndum.

Íraksher hefur átt í mestu vandræðum með að halda aftur af framrás vígamanna samtakanna, auk þess sem kúrdískar hersveitir hafa reynt eftir fremsta megni að halda þeim utan síns áhrifasvæðis. Bandaríkjaher hefur gert loftárásir á liðmenn samtakanna, en Obama hefur lýst yfir að bandarískir hermenn verði ekki sendir til Írak til að takast á við sveitirnar.

Þó hefur verið gefið út að Bandaríkin og bandamenn þeirra muni þjálfa og vopna aðra hópa, sem hafa heitið því að berjast gegn samtökunum.

IS, ISIS, ISIL eða Daesh

Nafnavandi stjórnvalda og fjölmiðla, þótt hann kunni að virðast táknrænn, er þó enn til staðar: Hvað á að kalla samtökin? Morgunblaðið og mbl.is notuðust framan af við skammstöfunina ISIS, (e. Islamic State of Iraq and Syria, ar. الدولة الإسلامية في العراق والشام‎), en kalla samtökin nú „Ríki íslam“ (e. Islamic State, ar. الدولة الإسلامية).

Stjórnvöld í Bandaríkjunum hafa á hinn bóginn notað skammstöfunina ISIL, sem í grunninn stendur fyrir það sama á arabísku og ISIS, en útleggst Islamic State of Iraq and Levant á ensku. Ástæðan fyrir þessum mun eru sjónarmið um hvernig þýða eigi arabískuna yfir á ensku.

Einhverjum kann að þykja það táknræn viðurkenning á þessum samtökum að ganga svo langt að kalla þessi miður geðslegu samtök ríki. Stjórnvöld í Frakklandi hafa af þessari ástæðu tekið af skarið með þetta og kalla samtökin nú Daesh. Daesh, sem útleggst داعش á arabísku, er skammstöfun á al-Dawla al-Islamiya fi al-Iraq wa al-Sham, sem er þýðing úr arabísku á الدولة الإسلامية في العراق والشام.

Daesh-öfgamenn

Frakkar höfðu gert því í skóna að þeir myndu nota Daesh yfir samtökin í náinni framtíð, en Daesh birtist í fyrsta skipti í opinberum skjölum frá frönskum stjórnvöldum í vikunni. Franski utanríkisráðherran Laurent Fabius, sagði í frönskum fjölmiðlum að samtökin væru hryðjuverkasamtök, ekki ríki.

„Ég mæli ekki mað að nota hugtakið Ríki íslam um samtökin. Það gerir skilin milli íslamstrúar, múslima og íslamista óskýrari. Arabarnir kalla þau Daesh og ég mun kalla þau Daesh,“ segir utanríkisráðherrann.

Frakkar eru ekki einir á báti um að efast um þá orðanotkun sem viðgengst. Dar al-Ifra, einn trúarleiðtoga múslima í Egyptalandi, hvatti fjölmiðla um allan heim til að hætta að nota hugtakið Ríki íslam yfir samtökin og lagði til að þau yrðu köllum „al-Qaeda Separatists in Iraq and Syria,“ eða QSIS. 

Samtök leiðtoga múslima í Bretlandi hafa tekið í sama streng. Þeir hafa hvatt David Cameron, forsætisráðherra Bretlands, til að hætta að nota hugtakið Ríki íslam og nota frekar „ó-íslamska ríkið“ (e. Un-Islamic State). 

Þó svo að þýðing nafns samtakanna yfir á latneskt letur sé ekki einfalt, þá er önnur og einfaldari ástæða fyrir því að kalla samtökin Daesh: liðsmenn þeirra hata nafnið, mögulega vegna þess að skammstöfunin líkist um of arabíska orðinu دعس, eða Das, sem þýðir að troða undir eða kremja. AP-fréttastofan segir til að mynda frá því að samtökin hafi heitið því að skera tunguna úr hverjum þeim sem notaði hugtakið á opinberum vettvangi.

Hermaður í Írak.
Hermaður í Írak. AFP
Vestræn ríki hafa aðstoðað Íraka og Kúrda í baráttu þeirra …
Vestræn ríki hafa aðstoðað Íraka og Kúrda í baráttu þeirra við samtök íslamista. AFP
John Kerry hét því að samtökin yrðu upprætt.
John Kerry hét því að samtökin yrðu upprætt. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert