Skotar líta til Norðurlanda

Skotar geta vel komist af sem farsælt smáríki í samstarfi við Norðurlönd. Þetta segir Baldur Þórhallsson, prófessor í stjórnmálafræði frá Háskóla Íslands. Hann segir það þó vel geta gerst að sjálfstæðissinnar tapi og koðni niður í kjölfarið. 

„Staðan er sú að Skotar hafa mjög mikla sjálfsstjórn. Mesta breytingin með sjálfstæði Skotlands varðar utanríkismálin, Skotar munu þá fara sjálfir með utanríkis- og varnarmál og kjósa sér sína eigin stöðu í alþjóðakerfinu. Stærð Skotlands, ef við skoðum þessa hefðbundnu breytur sem notaðar eru til að útskýra stærð ríkja, fellur mjög vel að hinum Norðurlöndunum; Noregi, Danmörku og Finnlandi. Íbúafjöldi er svipaður og þjóðarframleiðsla á mann er mjög svipuð. Skotarnir hafa olíuauð, mjög öfluga stjórnsýslu og það er í raun ekkert sem bendir til þess að Skotar geti ekki verið farsælt smáríki rétt eins og Norðurlöndin eru. Að sjálfsögðu skiptir það þó sköpun að ríkinu sé vel stjórnað þegar kemur að efnahagsmálum og öðru en það á við um öll ríki hvort sem þau eru stór eða smá,“ segir Baldur. 

„Þeir geta haldið í breska pundið án þess að fá stuðning frá enska Seðlabankanum ef að sjálfstæði verður niðurstaðan en það er vissulega ekki ákjósanleg staða. Það er mjög veik staða fyrir ríki að vera með gjaldmiðil sem aðrir stýra og hafa ekki fjárhagslegan bakhjarl. Skotar hafa líka þann möguleika, þar sem þeir ætla sér að vera áfram í Evrópusambandinu, að taka upp evruna,“ segir hann.

Norrænt samstarf

„Það er voðalega erfitt að átta sig á því hvað sé áróður og hvað ekki,“ segir hann og á þá við uppþornun olíuauðlinda Skota og fyrirtækjaflótta frá landinu.

„ Að minnsta kosti geta Skotar byggt á olíuauðnum í nokkur ár í viðbót, það held ég að liggi alveg fyrir. Ef að skoski þjóðarflokkurinn ætlar að framfylgja þeirri stefnu sem að hann boðar, að byggja upp velferðarkerfi í Skotlandi að norrænni fyrirmynd og efla heilbrigðiskerfið og menntakerfið og gera Skotland að virkum aðila að alþjóðarkerfinu, þá verða Skotar að auka tekjur sínar. Annað hvort verða þær að koma með auknum skatttekjum eða að stækka kökuna sem er til skiptanna með efnahagslegum ávinningum. Ég held að það sé nokkuð sanngjörn nálgun að segja það,“ segir Baldur. 

„Það fer eftir því hverjir fara með völdin, ef ríkið verður sjálfstætt, hvert verður leitað í samstarf. Ef það verður skoski þjóðarflokkurinn sem verður áfram í meirihluta, þá segir hann það fullum fetum að hann ætli að líta til Norðurlandanna. Flokkurinn vill taka upp norræna velferðarmódelið og fylgja þeim auk þess eftir á alþjóðavettvangi. Flokkurinn vill taka upp áþekka stefnu í utanríkismálum og leggja til dæmis áherslu á mannréttindi, þróunarsamvinnu, takast á við umhverfisvá og vinna innan Sameinuðu þjóðanna að friðargæslu og öðrum friðarmálum. Sjálfstætt Skotland getur orðið mjög öflugur bandamaður Norðurlandanna á alþjóðavettvangi. Ef verkamannaflokkurinn eða frjálslyndi flokkurinn komast hinsvegar til valda, þá munu þeir, að ég held, líta suður til Englands til samstarfs og vinna með þeim á alþjóðavettvangi,“ segir hann. 

Klúður hjá Cameron

„Ef að Skotar kjósa sér sjálfstæði í dag þá mun það leiða til enn meiri umræðu, til að mynda í Katalóníu, Flæmingjalandi, Québec og Norður-Írlandi. Þetta gæti leitt til ákveðinnar þjóðernisvakningar hjá þessum ríkjum og ég held að sjálfstæðissinnar Katalóníu munu verða enn ákafari í því að halda þjóðaratkvæðagreiðslu í nóvember um aðskilnað þó að stjórnin í Madríd sé á móti því. Ég veit að skoski þjóðarflokkurinn vinnur nokkuð með sjálfstæðissinnum í Québec í Kanada og sigur í kosningunum mun ýta undir aukna umræðu þar. Þetta mun því klárlega hafa einhver áhrif en hversu langt þetta mun taka hin ríkin til sjálfstæðis er ómögulegt að spá fyrir um á þessari stundu,“ segir Baldur. 

„Ég held að það yrði gríðarlegt áfall fyrir Stóra-Bretland ef Skotland verður sjálfstætt ríki. Breska heimsveldið heyrir eiginlega sögunni til og það að eyjan skuli klofna heggur æði nærri þessu stórveldi sem Bretland var á fyrrihluta tuttugustu öld. Þetta verður auk þess gríðarlega erfitt fyrir Cameron og íhaldsflokkinn sem verður kennt um þetta ef svo fer að Skotar öðlist sjálfstæði. Þetta mun veikja Bretland, að minnsta kosti til skamms tíma, bæði innan Evrópusambandsins og Sameinuðu þjóðanna,“ segir hann. 

„Þegar skoski þjóðarflokkurinn komst öllum að óvörum til valda á sínum tíma, þá hafði hann lofað þjóðaratkvæðagreiðslu um sjálfstæði Skotlands. Flokkurinn hafði í raun ekki gert ráð fyrir því að fá meirihluta í kosningum og þurfa framfylgja loforðinu. Það fyrsta sem hann gerði þegar hann hóf viðræður við stjórnvöld í London um þjóðaratkvæðagreiðslu, var að fara fram á að hafa spurningarnar í kosningunni þrenns konar. Í fyrsta lagi, að hægt væri að kjósa með sjálfstæði, í öðru lagi á móti sjálfstæði og þriðja spurningin átti að vera hvort það ætti bara að stórauka heimastjórnina í Edinborg. Cameron hafnaði því hinsvegar að hafa þá spurningu í þjóðaratkvæðagreiðslunni. Ef þessi spurning hefði fengið að vera með þá hefðu margir í Skotlandi sagt já við henni, að ég tel. Þetta sýnir að skoskir þjóðernissinnar töldu sig ekki hafa meirihluta fyrir sjálfstæði og að Cameron misreiknaði stöðuna algjörlega og gerði engan veginn ráð fyrir að þetta yrði svona hnífjafnt. Það er eiginlega alveg sama hvernig þjóðaratkvæðagreiðslan fer, hún er áfall fyrir Westminster því nú hafa þeir þegar lofað að flytja aukin völd til Skotlands, völd sem þeir voru á móti því að flytja fyrir tveimur árum og höfnuðu að yrði spurt um,“ segir hann. 

Sjálfstæðissinnar gætu koðnað niður

„Flestir munu strax segja já við þeirri spurningu hvort sjálfsstæðissinnar haldi ekki áfram baráttu sinni ef þeir tapa í kosningunni í dag. Ég hef meiri efasemdir. Einfaldlega vegna þess að það er svo erfitt að meta stöðuna þegar eitthvað svona gerist. Ég bendi á að í Québec gerðist það að þar var mjög mjótt á munum þegar greidd voru atkvæði um sjálfstæði, 53% á móti 47%. Þá héldu allir að sjálfstæðisbaráttan myndi halda áfram og það yrði önnur þjóðaratkvæðagreiðsla fljótlega og þar fram eftir götunum. Hinsvegar varð það svo að ósigur já-manna þar í landi þaggaði alveg niður í sjálfstæðissinnunum og þeir hafa látið lítið til sín taka síðustu tuttugu árin. Ef já-sinnar tapa með minnsta mun í Skotlandi þá getur vel verið að þeir eflist í sinni baráttu en það getur líka verið að þeir koðni einfaldlega niður,“ segir Baldur að lokum. 

AFP
Baldur Þórhallsson.
Baldur Þórhallsson. Sverrir Vilhelmsson
David Cameron.
David Cameron. AFP
AFP
AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert