34 eldgos í gangi um allan heim

Eldgosið í Holuhrauni er ekki einsdæmi en alls eru 34 eldgos í gangi um allan heim. Þetta kemur fram á vef Volcano Discovery en þar eru tekin saman öll þau eldsumbrot sem nú standa yfir á jarðarkringlunni. Auk þess eru 28 svæði listuð með minni virkni.

Í Evrópu gýs meðal annars eldfjallið á eyjunni Stromboli undan ströndum Ítalíu, en þar hefur nánast verið samfellt gos síðustu tvö þúsund árin.

Flest eru eldsumbrotin á indónesísku eyjunum en þar eru átta eldgos í gangi um þessar mundir. Auk þess má nefna fjögur eldgos í Afríku og Indlandshafi, þrjú eldgos sem eru í gangi í Suður-Ameríku, eitt í Norður-Ameríku og eitt á Suðurskautslandinu. Athygli vekur að Ísland er í sérflokki á síðunni og eru átta eldfjöll nefnd til sögunnar, þar á meðal Katla, Askja og Hekla.

Nánar má glugga í samantektina með því að smella hér, en þar má einnig nálgast kort af heiminum sem sýnir hvar eldfjöllin eru staðsett.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert