Sjö fangar í hungurverkfalli

Frá Laayoune í Vestur-Sahara.
Frá Laayoune í Vestur-Sahara. Mynd:Wikipedia

Sjö menn frá Sahrawi, sem voru harkalega barðir í marokkósku fangelsi í Vestur-Sahara hafa nú farið í hungurverkfall. Amnesty International staðfesti þetta í dag.

Að sögn Amnesty voru mennirnir voru handjárnaðir og harkalega barðir á miðvikudaginn fyrir framan aðra fanga í garði fangelsisins í Laayoune.  Mennirnir sjö voru handteknir snemma á þessu ári við mótmæli í Laayoune.

Eftir barsmíðarnar á miðvikudaginn voru þeir mikið slasaðir og m.a. er einn þeirra handleggsbrotinn. 

Lögreglustjórinn á svæðinu neitaði ásökunum Amnesty International í samtali við AFP.

„Þeir neituðu að fylgja reglum fangelsisins. Þeir notuðu glerbrot til þess að ráðast á fjóra fangaverði sem slösuðust í kjölfarið,“ sagði lögreglustjórinn og bætti við að hann ætti myndband af árásum fanganna. 

Fangelsisstjórinn hefur jafnframt neitað því að mennirnir séu í hungurverkfalli. 

Amnesty International hefur í dag þrýst á yfirvöld í Marokkó að sjá til þess að mennirnir verði ekki pyntaðir, heldur fái þá hjálp sem þeir þurfi vegna áverka sinna. 

Samtökin kröfðust einnig þess að málið verði rannsakað. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert