Skotar fái ekki einir aukin völd

David Cameron, forsætisráðherra Bretlands.
David Cameron, forsætisráðherra Bretlands. AFP

Samhliða því sem Skotar fá aukin völd yfir eigin málum í kjölfar þjóðaratkvæðisins í gær, þar sem skoskir kjósendur höfnuðu sjálfstæði frá breska konungdæminu, verða England, Wales og Norður-Írland að fá aukin völd yfir sínum málum. Þetta kemur fram á Twitter-síðu Davids Cameron, forsætisráðherra Bretlands. Rödd Skotlands hefði nú heyrst en ekki mætti hunsa raddir milljóna Englendinga. Hvetur hann ennfremur alla til þess að taka þátt í því í framhaldi þjóðaratkvæðisins að byggja upp betri og bjartari framtíð fyrir Bretland.

Forystumenn helstu stjórnmálaflokka Bretlands, Íhaldsflokksins, Verkamannaflokksins og Frjálslyndra demókrata, hétu því fyrir þjóðaratkvæðið að ef Skotar höfnuðu sjálfstæði yrði Skotlandi tryggð aukin völd yfir eigin málum. Meðal annars skattamálum og velferðarmálum. Hins vegar liggur ekki nákvæmlega fyrir hvernig það verði útfært. Fram kemur á fréttavef breska ríkisútvarpsins BBC að flokkana þrjá greini á í þeim efnum. Vonir standi hins vegar til þess að hægt verði að leggja fram lagafrumvarp í nóvember.

Þannig vill Íhaldsflokkurinn að Skotar fái öll völd varðandi álagningu tekjuskatts fyrir utan skattleysismörk. Verkamannaflokkurinn vill hins vegar að þeir geti ráðið ráðstöfnun 15 pensa af hverju pundi sem tekjuskatturinn skilar. Frjálslyndir demókratar vilja ganga lengst. Skotar fái einnig völd yfir fjármagnstekjuskatti, erfðaskatti og fleiri sköttum. Einhvern veginn verður að samræma þessi sjónarmið og fá niðurstöðuna síðan samþykkta af stofnunum flokkanna.

Fram kemur í frétt BBC að skiptar skoðanir séu á meðal þingmanna um það hvernig rétt sé að standa að þessum málum. Margir þingmenn hafi þannig áhyggjur af því að farið verði of hratt í slíkar breytingar. Aðrir hafa áhyggjur af skorti á samráði. Þá telji sumir þingmenn að breytingar sem feli í sér aukin völd til Skota ættu aðeins að vera hluti af almennum umbótum á stjórnskipun Bretlands. Þá eru margir íhaldsmenn þeirrar skoðunar að fái Skotar aukin völd eigi það sama að gilda um Englendinga. Cameron hefur nú tekið undir það sjónarmið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert