Þrír látnir eftir fellibyl

Fellibylurinn Odile á gervihnattamynd.
Fellibylurinn Odile á gervihnattamynd. AFP

Að minnsta kosti þrír hafa látist vegna fellibyljarins Odile í Mexíkó. Tala látinna fór úr tveimur í þrjá þegar að suður-kóreskur maður fannst látinn við höfnina í Los Cabos í dag. 

Samkvæmt upplýsingum frá yfirvöldum eru tveir breskir ríkisborgarar týndir eftir fellibylinn en  hann fór yfir svæðið á mánudaginn og olli gífurlegu tjóni á hótelum og íbúðarhverfum.

Maðurinn sem fannst látinn í dag var 58 ára gamall. Degi áður hafði samstarfsmaður hans fundist látinn eftir að hafa drukknað.

Mennirnir tveir voru að reyna að keyra bíl í gegnum vatnsstraum en straumurinn sópaði þeim í burtu og mennirnir létust í kjölfarið.

Þyrlur hafa verið notaðar við leit af skosku pari, en bátur þeirra sökk þegar að Odile fór yfir. 

„Við vitum að tveir breskir ríkisborgarar eru týndir í Mexíkó,“ sagði í yfirlýsingu breska utanríkisráðuneytisins í dag.

„Við höfum verið í sambandi við yfirvöld á svæðinu og boðið fjölskyldum fólksins aðstoð á þessum erfiðu tímum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert