130 þúsund manns yfir landamærin

Ung stúlka við landamærin í gær.
Ung stúlka við landamærin í gær. AFP

130 þúsund manns hafa farið yfir landamæri Sýrlands og Tyrklands síðustu daga. Þetta staðfestu tyrknesk yfirvöld í dag.

Fólkið hefur flúið vígamenn Ríki íslams síðustu daga, en þeir berjast nú við kúrdískar hersveitir nálægt landamærunum.

Talsmaður Ríki íslams gaf út yfirlýsingu í dag þar sem múslímar eru hvattir til þess að drepa borgara frá þeim fjörtíu löndum sem taka þátt í baráttunni gegn samtökunum, undir forystu Bandaríkjanna.

„Ef að þú getur drepið ótrúaðan Ameríkana eða Evrópubúa, þar á meðal borgara landanna sem eru gegn Ríki íslams, treystu þá á Allah, og dreptu hann,“ kom m.a. fram í yfirlýsingunni sem birtist á netinu. 

Vígamenn samtakanna hafa nú sótt hart að bænum Ain al-Araba sem er þriðji stærsti bær Kúrda í Sýrlandi í næstum því viku. 

Samkvæmt heimildum á svæðinu hafa hersveitir Kúrda þó barist harkalega á móti vígamönnunum og gert þeim erfitt fyrir við að ná yfirráðum á svæðinu.

Þrátt fyrir ítrekað ákall Sýrlendinga og Kúrda hafa Bandaríkin ekki breitt úr loftárásum sínum í Írak til Sýrlands. 

Ríki íslams hefur náð yfirráðum í stórum hluta Sýrlands og framið þar ýmis voðaverk eins og afhöfðanir og krossfestingar. Tyrkland brást við vandanum með  því að opna landamæri sín fyrir sýrlenskum Kúrdum og hafa nú 130 þúsund manns flúið yfir landamærin til Tyrklands. 

Fólk sem flúði til Tyrklands hafa nú lýst hryllingnum fyrir fjölmiðlafólki. „Þeir sögðu í moskunum að þeir myndu drepa alla Kúrda frá sjö ára til 77 ára,“ sagði flóttamaðurinn Sahab Basravi í samtali við AFP. „Þannig að við söfnuðum saman eigum okkar og flúðum.“

Samkvæmt upplýsingum frá mannréttindasamtökum hefur Ríki íslams tekið undir sig að minnsta kosti 64 þorp á svæðinu og tekið sextán Kúrda af lífi. 

Hins vegar hafa hersveitir Kúrda hert árásir sínar og að minnsta kosti 21 liðsmaður Ríki íslams lést í árásum þeirra á einni nóttu. 

Flóttamenn biðja um vatn að drekka við landamærin við bærinn …
Flóttamenn biðja um vatn að drekka við landamærin við bærinn Suruc í suðaustur Tyrklandi. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert