Skipulagði árásina í marga mánuði

Frá Pocono fjöllunum í Pennsylvaníu. Talið er að Frein sé …
Frá Pocono fjöllunum í Pennsylvaníu. Talið er að Frein sé þar á flótta. Mynd:Wikipedia

Gífurleg leit stendur nú yfir í skóglendi í Pennsylvaníu í Bandaríkjunum að Eric Frein, en hann er talinn hafa skotið tvo lögreglumenn að störfum 12. september.

Annar maðurinn lést af sárum sínum en hinn liggur alvarlega slasaður.

Árásarriffill og skotfæri í eigu Frein hafa nú fundist nálægt lögreglustöðinni þar sem mennirnir voru skotnir. Þetta kemur fram í frétt NBC.

Yfirvöld telja að Frein, sem er 31 árs, hafi skipulagt árás sína og flótta í marga mánuði eða ár. Frein hefur ekki náðst þrátt fyrir mikla leit. Einnig hefur verið lýst eftir honum úti um öll Bandaríkin. 

Á blaðamannafundi í gær sagði lögreglustjóri Pennsylvaníu, George Bivens, að þeir sem leituðu nú Frein hefðu fundið ýmsa hluti úr eigu hans við leitina. „Rannsóknir okkar benda til þess að hann hafi skipulagt hann þessa árás í marga mánuði og jafnvel í einhver ár,“ sagði Bivens. 

Bivens bætti við að rannsóknarmenn málsins teldu að þeir nálguðust Frein, en  hann þekkir sig vel í skóglendinu þar sem hans er leitað. Er það í Pocono-fjöllunum í norðausturhluta Pennsylvaníu. 

„Hingað til hefur hann haft það framfyrir okkur að þetta er eins og bakgarðurinn hans,“ sagði Bivens. „Nú þegar okkar fólk þekkir svæðið nálgumst við hann hratt.“

Síðan lýst var eftir Frein hefur ýmislegt komið í ljós um manninn. Samkvæmt frétt fréttastofunnar NBC var hann heillaður af vopnum og bardögum.

Hann lék sér í hlutverkjaleikjum þar sem hann var bardagamaður. Nú lítur út fyrir að áhugamálið hafi heltekið hann.

Frein er sonur fyrrverandi hermanns og var í skotliði í menntaskóla. Jafnframt hafði hann lengi verið á móti lögregluvaldi og ríkisstjórninni. 

Frétt NBC um Frein.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert