120 skæruliðar létust í árásunum

Að minnsta kosti 120 skæruliðar létust í loftárásum Bandaríkjahers og bandamanna þeirra í nótt, samkvæmt upplýsingum frá mannréttindahreyfingunni Syrian Observatory for Human Rights sem er með aðsetur í Bretlandi.

Meðal annars létust yfir 70 liðsmenn Ríki íslam í norður- og austurhluta Sýrlands og um 50 liðsmenn Al-Qaeda.

Bandaríkjaforseti, Barack Obama, mun ávarpa þjóð sína frá Hvíta húsinu klukkan 10 að staðartíma, klukkan 14 að íslenskum tíma. Að ávarpi loknu mun Obama mæta á fund hjá allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna í New York. Loftárásirnar í nótt eru þær fyrstu sem Bandaríkin gera á Sýrland. 

Samkvæmt varnarmálaráðuneyti Bandaríkjanna voru notaðar herþotur, ómönnuð loftför, og Tomahawk eldflaugar í árásinni en meðal annars voru gerðar árásir á Raqqa þar sem samtökin Ríki íslam eru sterk.

Sameinuðu þjóðirnar og stjórnvöld í í Sýrlandi voru upplýst um það fyrirfram að gera ætti árásirnar. Þrátt fyrir að vera fyrstu árásir Bandaríkjahers á Sýrland þá hafa verið gerðar 190 loftárásir á búðir Ríki íslam í Írak frá því í ágúst.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert