Segjast hafa frelsað skólastúlkur

Nokkrum stúlkum tókst að flýja undan liðsmönnum samtakanna í apríl. …
Nokkrum stúlkum tókst að flýja undan liðsmönnum samtakanna í apríl. Þar á meðal þessi stúlka sem sagði sögu sína á fundi með blaðamönnum í Washintgon í Bandaríkjunum í síðustu viku. AFP

Nígeríski herinn segist hafa náð að frelsa hluta skólastúlkna sem liðsmenn íslömsku samtakanna Boko Haram rændu úr þorpinu Chibok í apríl sl.

Hershöfðinginn Chris Olukolade segir í samtali við breska ríkisútvarpið að stúlkurnar séu nú í umsjá hersins, en hann greindi ekki frá því hversu mörgum stúlkum herinn hefur bjargað. Hann segir ennfremur að aðgerðir hersins standi enn yfir.

Liðsmenn Boko Haram rændu rúmlega 200 stúlkum, sem stunduðu nám við heimavistarskóla, í ríkinu Borno, sem er í norðausturhluta Nígeríu. 

Mannsránin vöktu mikla athygli í fjölmiðlum og voru þau fordæmd víða um heim. 

Mótmæli voru skipulögð undir heitinu #BringBackOurGirls en yfirvöld í Nígeríu voru hvött til þess að leggja meira af mörkum til að koma stúlkunum til bjargar. 

Skömmu eftir ránið birtu liðsmenn Boko Haram myndskeið sem sýndi yfir 100 stúlkur sem var rænt. Þeir buðust til að skipta á þeim og föngum. 

Fram kemur á vef BBC, að ekki hafi tekist að fá það staðfest með óháðum hætti hvort búið sé að koma stúlkunum í öruggt skjól eður ei. 

Uppfært kl. 20:25

Talsmenn hersins drógu í kvöld til baka yfirlýsingu um að stúlkunum hefði verið komið til bjargar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert