Staðfest að gíslarnir séu látnir

Mannrán eru fremur tíð í Jemen
Mannrán eru fremur tíð í Jemen AFP

Þýsk stjórnvöld hafa staðfest að þýsk hjón sem störfuðu sem hjálparstarfsmenn í Jemen og sonur þeirra, séu látin en þeim var rænt fyrir fimm árum síðan. Stjórnvöld vísa í öruggar heimildir frá leyniþjónustunni í tilkynningu til ættingja og vina.

Hjónin, Johannes H. og Sabine, voru bæði 35 ára er þeim var rænt ásamt þremur ungum börnum sínum í norðurhluta Jemen í júní 2009. Full nöfn fjölskyldumeðlima hafa ekki verið gefin upp.

Tvær dætur þeirra voru látnar lausar í maí 2010 en bæði foreldrar þeirra og bróðir þeirra sem var eins árs er þeim var rænt, eru látin, að sögn mágs mannsins, sem er prestur í Þýskalandi. Í samtali við AFP fréttastofuna vísar hann í bréf frá utanríkisráðuneytinu.

Fjölskyldunni var rænt ásamt fleiri útlendingum af hryðjuverkahópi sem talinn er tengjast Al-Qaeda hryðjaverkasamtökunum. Stúlkurnar tvær, sem eru nú átta og tíu ára, búa hjá ættingjum sínum í Saxlandi.

Frétt Bild

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert