Breti handtekinn í Bangladess

Lögregla í Bangladess ásamt Samiun Rahman
Lögregla í Bangladess ásamt Samiun Rahman AFP

Lögreglan í Bangladess hefur handtekið rúmlega tvítugan Breta sem talið er að hafi komið til landsins í þeim tilgangi að safna liði til að taka þátt í heilögu stríði á vegm Ríki íslam.

Samkvæmt upplýsingum frá lögreglu var Samiun Rahman, 24 ára Lundúnabúi sem er ættaður frá Bangladess, handtekinn á lestarstöð í höfuðborginni skömmu fyrir miðnætti í gær.

Við skýrslutöku sagðist hann vera í landinu til þess að fá fólk til þess að ganga til liðs við Ríki íslam og Nusra samtökin.

Rahman tók þátt í bardögum í Sýrlandi frá september til desember í fyrra með Nusra,  sem nýt­ur stuðnings al-Qa­eda hryðju­verka­sam­tak­anna. Að sögn lögreglunnar fór Rahman til Sýrlands ásamt breskum félaga sínum. 

Að sögn lögreglu ætlaði Rahman, sem heitir öðru nafni Ibn Hamdan, að fá menn með sér til Sýrlands en einnig hafði hann áhuga á að koma upp neti tengdu al-Qaeda í Bangladess og Búrma.

Foringi al-Qaeda,Ayman al-Zawahiri, greindi frá því fyrr í mánuðinum að samtökin ætluðu sér að setja upp hryðjuverkasamtök í Suður-Asíu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert