Gíslatökumaðurinn gafst upp

Maðurinn fór reglulega með gíslinn fram á svalir.
Maðurinn fór reglulega með gíslinn fram á svalir. AFP

Maðurinn sem tók starfs­mann hót­els í Bras­il­íu í gísl­ingu í dag hefur gefið sig á vald lögreglu samkvæmt fréttaveitu AFP.

Maðurinn, sem var vopnaður skotvopni, hafði neytt gíslinn til þess að klæðast vesti sem hlaðið var sprengi­efni. Gíslatökumaðurinn birtist nokkrum sinnum á svölum hótelherbergis á 13. hæð Saint Peter hótelsins á meðan á gíslatökunni stóð. Veifaði hann þar skotvopninu og sýndi lögreglumanninn gíslinn.

Maðurinn mun vera á þrítugsaldri og er jafnframt fyrrum frambjóðandi í sveitarfélagskosningum í Brasilíu. Kröfur mannsins munu hafa verið afar óljósar. Meðal annars fór hann fram á að nýjum lögum, sem koma eiga í veg fyrir að fólk á sakaskrá geti boðið sig fram, verði framfylgt í þing- og forsetakosningum Brasilíu í næstu viku.

Hótelið var rýmt í kjölfar þess að gíslatökumaðurinn lét starfsfólk vita af sér og voru þrír samningamenn sendir að herberginu til að reyna að leysa úr aðstæðum auk þess sem sprengjusérfræðingar voru fengnir á svæðið. Samkvæmt AFP kom maðurinn sjálfviljugur út og hafði hann þá leyft gíslinum að fara úr sprengjuvestinu. 

Gíslatökumaðurinn var færður á lögreglustöð til yfirheyrslu en enn er óljóst hvort um alvöru sprengiefni hafi verið að ræða.

 Gíslataka á hóteli í Brasilíu 

Lögreglumenn fylgja gíslatökumanninum út af hótelinu.
Lögreglumenn fylgja gíslatökumanninum út af hótelinu. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert