Meiri ógn af Íran en ISIS

Benjamin Netanyahu, forsætisráðherra Ísraels, segir ljóst að nái Íran að þróa kjarnavopn mun skapast mikil hætta innan alþjóðasamfélagsins. Mun meiri en sú sem nú stafar af samtökum ISIS, Ríkis íslam. Segir frá þessu í fréttaveitu AFP.

„Við verðum að sigra liðsmenn ISIS,“ sagði forsætisráðherrann í ávarpi sínu fyrir Sameinuðu þjóðunum. „En að sigrast á þeim og leyfa Íran að þróa enn frekar kjarnorkustarfsemi sína jafngildir því að fórna stríðinu til þess eins að sigra eina orrustu.“

Barack Obama, forseti Bandaríkjanna, hefur lýst því yfir að bandarískar stofnanir hafi vanmetið hættuna af íslömskum öfgahópum í Sýrlandi. Hersveitum Bandaríkjanna tókst að brjóta á bak aftur samtök al-Qaeda í Írak en á sama tíma var vöxtur Ríkis íslam í Sýrlandi vanmetinn. 

Netanyahu skaut hörðum skotum að Hassan Rouhani, forseta Írans, í ávarpi sínu. Sagði hann m.a. ljóst að stjórnvöld þar í landi hefðu í hyggju að þróa kjarnavopn. Stöðva verður öll slík áform að sögn forsætisráðherrans.

Benjamin Netanyahu, forsætisráðherra Ísraels, flytur erindi.
Benjamin Netanyahu, forsætisráðherra Ísraels, flytur erindi. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert