Mörg lík finnast aldrei

Rúmlega 40 þúsund manns hafa látið lífið á flótta frá …
Rúmlega 40 þúsund manns hafa látið lífið á flótta frá árinu 2000, þar af 22 þúsund manns á leið til Evrópu. AFP

Fleiri en 3.000 flóttamenn hafa látið lífið á þessu ári þegar þeir hafa verið að reyna að komast yfir Miðjarðarhafið. Andlátunum hefur því fjölgað um rúmlega helming frá árinu 2011. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu sem birt var í dag.

Rúmlega 40 þúsund manns hafa látið lífið á flótta frá árinu 2000, þar af 22 þúsund manns á leið til Evrópu. Margir láta lífið þegar ofhlaðin skip komast ekki á leiðarenda. 500 flóttamenn, þar af 100 börn, létu lífið í síðustu viku en fólkið var á leið milli landa með skipi.

Margir flóttamannanna vilja komast frá stríði, fátækt og ofsóknum, segir í skýrslunni. Þar á meðal eru Sýrlendingar sem flýja vilja átökin í landinu.

Þó að tölurnar í skýrslunni séu háar, er bent á að þær séu líklega hærri. Skortur er á gögnum um þessi mál og telja verður líklegt að andlát margra flóttamanna séu aldrei skráð. Í skýrslunni segir að sumir sérfræðingar telji að fyrir hvert lík sem finnst, séu að minnsta kosti tvö sem finnast aldrei.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert