Bandarískt herlið verður áfram í Afganistan

Bandarískir hermenn í Kabúl, höfuðborg Afganistans.
Bandarískir hermenn í Kabúl, höfuðborg Afganistans. AFP

Bandarískir hermenn munu vera áfram í Afganistan samkvæmt tvíhliða samkomulagi sem afgönsk og bandarísk stjórnvöld hafa undirritað. Barack Obama, forseti Bandaríkjanna, fagnar þessu og segir samkomulagið marka tímamót.

Hamid Karzai, fyrrverandi forseti Afganistans, hafði hins vegar neitað að undirrita öryggissamkomulagið við bandarísk stjórnvöld. Það leiddi til stirðari samskipta og áhyggjur manna af öryggismálum jukust. Með nýrri ríkisstjórn hafa áherslurnar breyst.

Flest NATO-ríki munu draga herlið sín frá Afganistan á þessu ári. Þá verða um 9.800 bandarískir hermenn eftir.  Í byrjun næsta árs munu um 12.500 erlendir hemenn vera í landinu. Bandaríkin fara fyrir aðgerðunum í Afganistan en bandalagsríki á borð við Ítalíu og Þýskaland munu einnig vera með herlið í landinu.

Hanif Atma, sem er nýr þjóðaröryggisráðgjafi Afganistans, undirritaði samkomulagið fyrir hönd ríkisstjórnarinnar. Jim Cunningham, sendiherra Bandaríkjanna í Afganistan, skrifaði undir samkomulagið fyrir hönd bandarískra stjórnvalda. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert