Evrópa er sem virki

AFP

Evrópusambandið þarf að styrkja eftirlit sitt í lofti og á sjó við Miðjarðarhafið til að stuðla að bættri björgun þeirra flóttamanna sem lenda þar í háska. Er þetta mat mannréttindasamtakanna Amnesty International.

Í nýrri skýrslu þeirra er slegin upp þeirri samlíkingu að Evrópa sé virki sem lokar á straum flóttafólks þangað. Margir þeirra eru að leita nýrra heimkynna fjarri átakasvæðum innan ríkja á borð við Sýrland.  

„Evrópusambandið og aðildarríki þess verða að auka fjölda þeirra farartækja sem sjá um björgun við Miðjarðarhafið,“ hefur fréttaveita AFP eftir John Dalhuisen, sem fer með málefni mannréttindasamtakanna í Evrópu og Mið-Asíu. Benti hann á að sambandið verði að bregðast við með skýrum aðgerðum til þess að bjarga mannslífum á hafi úti.

Samtökin segja að yfir 3.000 flóttamenn hafi látið lífið á þessu ári er þeir gerðu tilraun til þess að þvera Miðjarðarhafið. Er þetta tvöfalt meiri fjöldi en lést þar árið 2011.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert