Greiðir skólagjöld með kynlífi

AFP

„Ég hata orðið „vændiskona“. Þegar hugsað er um vændiskonur dettur fólki í hug einhver sem er til vandræða úti á götu. Ég er ekki þannig. Ég fer í skólann, ég stunda sjálfboðavinnu, ég neyti ekki eiturlyfja. Ég er venjuleg manneskja.“

Svona lýsir Sophie, 22 ára háskólanemi sér í viðtali við The Independent. Sophie er þó ekki hennar rétta nafn, heldur dulnefni sem notað er í viðtalinu.

Sophie fer nokkuð óhefðbundnar leiðir til þess að greiða skólagjöld en hún hefur starfað sem fylgdarkona í þrjú ár. Sophie stundar kynlíf með fólki fyrir greiðslu og eru flestir viðskiptavinir hennar karlkyns. Sophie segir að námslánin sem standi henni til boða séu ekki nóg til þess að borga leigu og uppihald og fari hún því þessa leið til þess að afla sér fjár.

Hunsuð af skólayfirvöldum

Blaðamaður The Independent, Rose Troup Buchanan, ræddi jafnframt við Ron Roberts sem kennir við Kingston háskóla í Englandi.  Hann heldur því fram að nemendur eins og Sophie, séu hunsaðir af skólayfirvöldum út um allt England. „Þegar eitthvað dregur athygli að þeim raunveruleika sem sýnir hvað fólk leggur á sig fyrir menntum, þá sýna skólarnir því enga athygli,“ segir Roberts.

Roberts heldur því fram að háskólar séu ekki lengur skólar, heldur stofnanir sem einbeita sér að því að selja menntun og þá á kostnað nemendanna og velferð þeirra.  

Samkvæmt rannsókn Roberts um kynlífsiðnaðinn og háskóla í Englandi, sem var gefin út af háskólunum í Kingston og Leeds, höfðu 6% aðspurðra unnið fyrir sér með kynlífi. Niðurstöðurnar voru byggðar á svörum frá 200 nemendum í 29 háskólum í Englandi. 

Fær skrýtnar beiðnir frá viðskiptavinum

Sophie var 19 ára þegar hún hitti fyrsta viðskiptavin sinn. „Ég var svo ung, ég vissi ekki neitt hvað ég var að gera. Ég hugsaði bara hvort ég vildi halda áfram í skólanum eða ekki og komst að því að það þetta væri betra en að hætta.“

Sophie auglýsir þjónustu sína á sérstakri síðu á netinu. Þar getur hún valið sér viðskiptavini og byggir valið á umsögnum frá öðrum fylgdardömum. Með umsögnunum er reynt að aðskilja réttmæta viðskiptavini frá þeim sem gætu verið hættulegir. 

Sophie hittir viðskiptavini sína annað hvort heima hjá sér eða henni. Þeir hafa samband, lýsa hvað þeir vilja gera með henni og þau finna tíma til að hittast.

„Ég hef fengið mjög mikið af skrýtnum beiðnum. Áður en ég hitti viðskiptavini er rætt hvað þeir vilja og ég segi annað hvort já eða nei. Maður vonar að þeir hlusti en þeir gera það ekki alltaf,“ segir Sophie. 

Áhætta er hluti af starfinu

Það er ekkert öryggisnet í þessum bransa. Sophie er algjörlega berskjölduð gagnvart viðskiptavinum sínum, sem eru yfirleitt ókunnugir menn. „Ég geri allt sem ég get til þess að vera örugg. Stundum er maður það bara ekki og heldur að allt sé í lagi og það er það síðan ekki,“ segir hún. 

Eftir langa þögn bætir Sophie við að óöryggi sé einfaldlega hluti af starfinu. „Ég hef lent í ýmsu en áhættan er hluti af starfinu.“

Fyrir nokkrum árum hitti Sophie viðskiptavin á heimili hans sem hleypti henni síðan ekki út og reyndi að halda henni fastri í íbúð sinni. Sophie slapp en það breytti henni. „Ég ákvað að hætta í þessum bransa. Þetta var of mikið fyrir mig.“

Sophie neyddist þó til að snúa aftur í heim kynlífsiðnaðarins eftir einhvern tíma vegna peningaleysis. Sophie horfðist í augu við þann möguleika að hún þyrfti jafnvel að hætta í skólanum og hóf því aftur störf í kynlífsiðnaðinum.

Sophie segist ekki sátt við starf sitt þó það borgi vel. „Það kannski hljómar mjög flott að fá hundrað pund á tímann en ég þarf oft að eyða þeim klukkutíma með ömurlegu fólki. Já, þetta eru hundrað pund á klukkustund en þessi klukkustund getur verið föst í hausnum á þér í marga mánuði.“

Hún veltir fyrir sér hvernig viðskiptavinir hennar eiga fyrir því að hitta hana reglulega. „Mér líkar illa við flesta þeirra. Ég velti fyrir mér af hverju þeir sækja í mig. Ég skil ekki af hverju þeir sækjast ekki í konur á sínum aldri, þeir eru yfirleitt miklu eldri en ég.“ 

Enginn veit sannleikann

Sophie skipuleggur vinnuna í sína í kringum nám sitt við háskólann. Stundum getur hún ekki hitt viðskiptavini sína í margar vikur vegna prófa og verkefnaskila. Þá þarf hún að bæta þeim það upp seinna. „Ég hef náð að standa mig í náminu hingað til en maður er svo allt önnur manneskja eftir að maður gerir það sem ég geri. Ég kem aftur upp í skóla eftir að hafa hitt viðskiptavin og enginn veit hvað ég var að enda við að gera.“

Að mati Buchanan skiptast nemendur sem starfa í kynlífsiðnaðinum í tvo flokka. Þá sem „lenda“ í kynlífsiðnaðinum, oft vegna eiturlyfjafíknar, og þeir sem taka þátt í honum að fúsum og frjálsum vilja. Þeir einstaklingar forðast frekar hjálparsamtök og annað sem hannað er til þess að aðstoða fólk í þeirra sporum. Þau líta á sig sem metnaðarfulla námsmenn og líta á hlutverk sitt í kynlífsiðnaðinum sem eitthvað aðskilið námsmanninum. Þau eiga sér annað sjálf og að mati Buchanan getur það leitt til einangrunar.

Til að mynda passar Sophie að líf hennar sem nemandi og líf hennar sem fylgdarkona séu aðskilin. „Ég hef kynnst bestu vinum mínum hérna í skólanum en ég veit að þau myndu ekki líta á mig sömu augum ef þau vissu hvað ég gerði,“ segir Sophie og bætir við að engin úr vinahóp hennar eða fjölskyldu viti sannleikann.  

Hættir ekki fyrir útskrift

Jafnframt finnst Sophie ekki möguleiki fyrir hana að stofna til ástarsambands á meðan hún er fylgdarkona. „Það eru strákar þarna úti sem mér líkar vel við og ég myndi vilja kynnast þeim betur. En það er bara ekki mögulegt núna, vegna þess að það sem ég geri er ekki í lagi og enginn myndi samþykkja það.“

Þegar Sophie útskrifast úr háskóla ætlar hún að hætta starfi sínu sem fylgdarkona en ekki fyrr. „Ég þarf viðskiptavinina en mér líkar alls ekki vel við þá. Ég læt líta út fyrir að mér líki vel við þá en þegar klukkutíminn er liðinn þá kveð ég þá og held áfram með daginn minn.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert