Hluti S-Frakklands á floti

Hluti af Suður-Frakklandi er á floti eftir gríðarlegar rigningar. Einna verst hefur borgin Montpellier farið út úr óveðrinu en hluti borgarinnar er undir vatni. Yfirvöld hafa lýst yfir hamfaraástandi í um sextíu bæjum og þorpum.

Veðurstofan hafði varað við úrkomunni en það rigndi eins og hellt væri úr fötu í Montpellier í gær. Um fjögur þúsund manns þurftu að leita á náðir neyðarskýla vegna þess að íbúðir þeirra fylltust af vatni. Alls bárust 1.200 útköll til slökkviliðsins í gær þar sem fólk leitaði eftir aðstoð vegna vatnselgsins.

Loka þurfti mörgum vegum á þessum slóðum og almenningssamgöngur lágu niðri að hluta. Áfram er spáð rigningu í Languedoc-Roussillon-héraði í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert