Seld á 12 Bandaríkjadali

Hvað bíður Shama’a Ali og annarra sem hafa svipaða sögu …
Hvað bíður Shama’a Ali og annarra sem hafa svipaða sögu að segja og hún? AFP

Íraska stúlkan Shama’a Ali er nítján ára og þunguð. Samtökin Ríki íslams rændu henni og seldu hana á 12 Bandaríkjadali, tæpar 1.500 krónur. Hún er ein fárra af ættbálki Kúrda, Jasída, sem hefur tekist að flýja úr haldi. Viðtal við hana er birt á fréttavef Berlingske í dag.

Hún lýsir því í viðtali við blaðamann þegar hún flúði ásamt eiginmanni, tveggja ára gömlum syni sínum, tengdaforeldrum, mági og svilkonu þann 3. ágúst undan árásum Ríki íslam en hópur Jasída leitaði skjóls á fjallinu Sinjar í norðvesturhluta Íraks. 

Um 50 þúsund Jasídar komust að fjallinu en voru umkringdir af liðsmönnum Ríki íslam. Shama'a Ali og fjölskylda hennar kom auga á hermenn á flóttanum sem þau töldu vera Kúrda en í ljós kom að það voru liðsmenn Ríki íslam sem tóku þau höndum.

Seld á uppboði líkt og hvert annað húsdýr

Shama’a Ali var komin fjóra mánuði á leið á þessum tíma og var flutt ásamt fjölmörgum öðrum til borgarinnar Mósúl þar sem hún var boðin upp á uppboði í borginni ásamt þúsundum öðrum kvenna.

Í viðtalinu lýsir hún því sem gerðist eftir að þau voru tekin höndum og það eina sem hún hafi viljað var að deyja. Eiginmaður hennar var skotinn sem og tengdafaðir og mágur. En konunum var smalað upp í rútur og farið með þær til Mósúl.

Þar var hún seld á 12 Bandaríkjadali líkt og flestar aðrar konur sem voru til sölu. Seld á markaði líkt og hvert annað húsdýr.

Maðurinn sem keypti hana var eldri maður búsettur í borginni. Liðsmenn Ríki íslam skipulögðu söluna á konunum og þær konur sem ekki brostu á réttum tíma og mótmæltu voru einfaldlega skotnar. Eins voru allar konur sem voru sjíta-múslímar drepnar. 

Maðurinn sem keypti Shama’a Ali vildi stunda kynlíf með henni en þar sem hún neitaði þá nauðgaði hann henni ítrekað og beitti hana ofbeldi. Loks gafst maðurinn upp og skilaði henni aftur í hendur Ríki íslam. Þar var henni haldið fanginni ásamt syni sínum í nokkra daga þar til henni var tjáð að hún væri komin í hendur nýs eiganda. Sá væri Sýrlendingur og væri á leiðinni að sækja eign sína.

Henni tókst að flýja eina nóttina ásamt syni sínum þegar verðirnir sváfu á verðinum og það var súnni múslími sem kom henni til aðstoðar á flóttanum. 

Shama’a Ali dvelur nú í flóttamannabúðum Kúrda í Írak ásamt bróður sínum og syni. Hún veit ekki hvað framtíðin ber í skauti sér fyrir hana og son hennar og ófætt barn. Henni hrýs hugur við að snúa aftur heim þar sem nágrannar hennar aðstoðuðu við að taka vini og ættingja hennar af lífi. Shama’a Ali dreymir um betra líf í Evrópu líkt og fjölmarga aðra flóttamenn en hvort sú von verður að veruleika á eftir að koma í ljós en yfir 330 þúsund manns eru með stöðu hælisleitenda í heiminum.

Umfjöllun Berlingske í heild

Kúrdar eru ofsóttir af liðsmönnum Ríki íslam
Kúrdar eru ofsóttir af liðsmönnum Ríki íslam AFP
AFP
Flóttafólk
Flóttafólk AFP
AFP
Fjölmargir kúrdar hafa flúið yfir til Tyrklands en það hafa …
Fjölmargir kúrdar hafa flúið yfir til Tyrklands en það hafa ekki allir verið svo heppnir að komast þangað AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert