Upplausn á Grænlandi

Aleqa Hammond
Aleqa Hammond Rax / Ragnar Axelsson

Mikil upplausn hefur ríkt í grænlenskum stjórnmálum í kjölfar þess að leiðtogi grænlensku landsstjórnarinnar, Aleqa Hammond, var sökuð um misnotkun á opinberu fé. Í dag sagði Hammond af sér sem formaður Siumuts flokksins og fyrir rúmum hálftíma tilkynnti nýr formaður landsstjórnarinnar, Kim Kielsen, að gengið yrði til þingkosninga 28.nóvember næstkomandi.

Á Hammond m.a. að hafa notað fé úr ríkissjóði Grænlendinga til að greiða hótelgistingu og flugmiða fyrir sig og fjölskyldu sína auk minni reikninga fyrir veitingar. Heildarfjárhæðin nemur yfir 100 þúsund dönskum krónum eða rúmlega tveimur milljónum íslenskra króna. Brotin eiga að hafa átt sér stað á tímabilinu maí 2013 til maí 2014 en Hammond greiddi ríkissjóði upphæðina til baka þann 8. desember síðastliðinn samkvæmt grænlenskum fjölmiðlum.

Brot Hammond hefur vakið mikla reiði meðal almennings í Grænlandi. Þingið sendi hana í tímabundið orlof að hennar eigin ósk í gær og sama dag fóru fram fjölmenn mótmæli í Nuuk þar sem krafist var nýrra þingkosninga. Ákvörðunin um að kalla til kosninga var hinsvegar tekin í dag eftir að fjórir ráðherrar landsstjórnarinnar sögðu af sér vegna málsins.

Sökuð um að misfara með fé

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert