Fimm sýkjast á hverri klukkustund

Samtökin Save the Children vara við því hversu hratt ebólan breiðist út en að meðaltali smitast fimm á klukkustund af ebólu í Síerra Leóne. Heilbrigðisyfirvöld í landinu ná engan vegin að veita þá aðstoð sem nauðsynlegt er að veita sjúkum.

Á vef BBC kemur fram að Save the Children segi að 765 ný ebólusmit hafi verið tilkynnt í Vestur-Afríku ríkinu í síðustu viku en sjúkrarúmin í landinu eru aðeins 327 talsins.

Ebólufaraldurinn sem nú geisar er sá versti í sögunni en alls eru 3.338 látnir. Staðfest smit eru 7.178, flest í Síerra Leóne, Líberíu og Gíneu.

Bandaríska heilbrigðisstofnunin CDC, sem hefur það hlutverk að hefta útbreiðslu sjúkdóma, telur að fari allt á versta veg og ebólan haldi áfram að breiðast út gæti fjöldi sýktra verið kominn í 1,4 milljónir í janúar.

Samtökin Save the Children segja að ebóla breiðist skelfilega hratt út í Síerra Leóne og nýjum tilvikum fjölgi hratt á milli vikna.

Alþjóðaheilbrigðisstofnun Sameinuðu þjóðanna, WHO, hefur rakið upphaf faraldursins. Talið er að farsóttin hafi að þessu sinni átt upptök sín þegar tveggja ára drengur í afskekktu þorpi, Meliandou, í Gíneu lést af dularfullri veiki eftir að hafa fengið háan hita, uppsölur og niðurgang í desember. Dauðsföllum fjölgaði jafnt og þétt, en nokkrir mánuðir liðu þar til sjúkdómurinn greindist loks, enda hafði ebólu ekki áður orðið vart á þessum slóðum. Á meðan hafði hinn banvæni vírus tekið sér bólfestu á frumskógarsvæði þar sem landamæri Gíneu, Líberíu og Síerra Leóne mætast.

23. mars var opinberlega lýst yfir því að hafinn væri ebólufaraldur. Þremur dögum síðar hafði sjúkdómurinn borist til Conakry, höfuðborgar Gíneu. Í skýrslu WHO um upphaf faraldursins segir að eftir það hafi sjúkdómurinn breiðst út eins og sinueldur. Í þrígang virtist sem tekist hefði að stöðva útbreiðsluna, en þarlend yfirvöld og alþjóðasamfélagið sofnuðu á verðinum og sjúkdómurinn tók sig upp aftur.

Vírusinn breiddist hratt út til Líberíu og Síerra Leóne. Nú er ástandið verst í Líberíu. Þar hafa tæplega 1.600 manns látið lífið vegna faraldursins samkvæmt opinberum tölum.

Fyrsta ebólutilfellið í Síerra Leóne var skráð 24. maí og næsta dag var sjúklingurinn settur í einangrun. Sjúklingurinn náði sér og enginn smitaðist á spítalanum. Ekki var hins vegar reynt að finna manninn, sem hafði smitað sjúklinginn. Hann er virtur heilari á sínum heimaslóðum og hafði haft ebólusjúklinga frá Gíneu til meðferðar. Talið er að hann tengist 365 dauðsföllum af völdum ebólu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert