Fimmtán fórust í sprengingu í Búlgaríu

 Fimmtán manns létust í sprengingu í verksmiðju skammt fyrir utan höfuðborg Búlgaríu, Sofíu. Sprengingin var svo öflug að það myndaðist gígur þar sem verksmiðjan stóð.

Talið er að enginn hafi lifað sprenginuna af en ekki var óhætt að koma inn svæðið þar sem verksmiðjan stóð fyrr en í morgun. Sprengingin varð um miðjan dag í gær.

Þrjár konur sem voru staddar í nágrenni byggingarinnar slösuðust og eru þær á sjúkrahúsi. 

Verksmiðjan annaðist eyðingu úreltra hergagna fyrir búlgarska herinn og samkvæmt fréttum fjölmiðla í Búlgaríu var verið að vinna með sprengiefni frá Grikklandi þegar slysið varð. Talið er að um mannleg mistök hafi verið að ræða en um 10 þúsund tonn af sprengiefni voru í verksmiðjunni þegar slysið varð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert