Sló í gegn nú en enginn hafði áhuga 2007

Fiðlusnillingurinn Joshua Bell lék fyrir gesti á Union lestarstöðinni í Washington í vikunni og fylgdust margir með fullir lotningar. Viðtökurnar nú voru aðeins öðru vísi en þegar hann lék á sömu lestarstöð árið 2007 með söfnunarbauk sér við hlið.

Hundruð tónlistarunnenda troðfylltu lestarstöðina og hlýddu á tónleika Bells, sem voru ókeypis. Enda ekki á hverjum degi sem fólki gefst kostur á að komast á ókeypis tónleika hjá Bell. Viðfangsefni hans á tónleikunum voru Bach og Mendelssohn og léku níu ungir fiðluleikarar sem hann hefur kennt með honum.

Fyrir sjö árum ákvað Bell að dulbúast og spila á lestarstöð í Washington með betlibauk. En nánast enginn stöðvaði til að hlýða á tónlist hans. Um var að ræða gjörning sem hann setti upp ásamt dagblaðinu Washington Post til þess að kanna hvort einhverjir hefðu áhuga á að hlusta á einn fremsta og frægasta fiðluleikara heims spila þegar þeir hlupu í gegnum lestarstöðina á leið til vinnu. 

Þrátt fyrir lítinn áhuga var sagan góð og hlaut umfjöllun WP Pulitzer verðlaunin í kjölfarið.

Umfjöllun Washington Post á sínum tíma

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert