Þýska hernum allt að vanbúnaði

Ursula von der Leyen, varnarmálaráðherra Þýskalands, ræðir við peshmerga-liða Kúrda …
Ursula von der Leyen, varnarmálaráðherra Þýskalands, ræðir við peshmerga-liða Kúrda og Þýska hermenn í Arbil. Þar hugðist hún afhenta Kúrdum vopn til að berjast við Ríki íslams, en vegna bilana náði vopnasendingin ekki í tæka tíð. MAJA HITIJ

Vandræðaganginum í kringum þýska herinn linnir ekki og hann er hafður að háði og spotti. Mikið af búnaði hersins er ónothæft og eins og sakir standa getur hann ekki staðið við skuldbindingar sínar gagnvart Atlantshafsbandalaginu um herafla, sem á að vera til taks. Sérstaklega er ástandið slæmt í flughernum. Bretar og Frakkar hafa sent orrustuþotur til að taka þátt í loftárásum á Ríki íslams með Bandaríkjamönnum og Belgar, Danir og Hollendingar hafa samþykkt að gera slíkt hið sama, en ekki Þjóðverjar, sem samkvæmt fréttum hefðu ekki einu sinni bolmagn til þess þótt þeir vildu.

Mikill þrýstingur er á Ursulu von der Leyen, varnarmálaráðherra Þýskalands, þessa dagana. Hún er gagnrýnd fyrir það hversu vanbúinn herinn er og vænd um að hafa blekkt þingið vísvitandi.

Bilaðar vélar og strandaglópar

Tvö atvik í liðnum mánuði afhjúpuðu ástandið. Í liðinni viku fór von der Leyen til Norður-Íraks til þess að ræða við fulltrúa Kúrda og þýska hermenn, sem eiga að þjálfa hermenn Kúrda í notkun vopna frá Þýskalandi. Aflýsa þurfti hluta af dagskrá ráðherrans. Bilanir ollu því að ekki var hægt að fljúga með vopnin, sem eiga að gagnast peshmerga-liðum Kúrda í baráttunni við samtökin Ríki íslams, og leiðbeinendurnir sjö úr þýska hernum voru strandaglópar í Búlgaríu. Send var vél til að bjarga málum, og svo önnur. Þegar þeir loks komust á áfangastað höfðu fjórar flugvélar verið notaðar. Vopnasendingin barst líka seint og um síðir og þá var ráðherrann, sem hafði ætlað að nota ferðina til að slá sér upp í fjölmiðlum, á bak og burt og gat ekki afhent vopnin í eigin persónu.

Ekki gekk betur með flutningavél af gerðinni Transall C-160, sem senda átti til Vestur-Afríku með gögn til hjálpar í baráttunni við ebólufaraldurinn. Bilun kom upp í vélinni og þurfti að lenda á spænsku eyjunni Gran Canaria. Senda þurfti aðra vél með varahluti og vélvirkja til þess að hægt væri að fljúga vélinni áfram.

„Athlægi á alþjóðavettvangi“

Á vefsíðu vikuritsins Die Zeit segir að þýski herinn hafi gert sig að „athlægi á alþjóðavettvangi“.

Um liðna helgi birtust síðan upplýsingar í vikuritinu Der Spiegel um tækjabúnað hersins. Þar kemur fram að af 56 Transall-vélum hersins er 21 tæk til notkunar, af 89 orrustuþotum af gerðinni Tornado eru 36 að fullu tilbúnar og af 13 eldflaugavarnarkerfum af gerðinni Patriot eru sjö tilbúin til notkunar.

Varnarmálaráðuneytið hafði látið þingið fá lista yfir vopna- og tækjabúnað hersins og ástand hans. „Í þeirra eigin tækjalista var þinginu gefið til kynna að allt sem keyrir, flýgur og siglir væri að öllu leyti til reiðu,“ sagði Rainer Arnold, talsmaður sósíaldemókrata í varnarmálum, við Der Spiegel. „Við þingmenn látum ekki draga okkur á asnaeyrum.“

Getur ekki staðið við skuldbindingar

Von der Leyen gekkst við því í viðtali á sunnudag að þýski herinn gæti ekki staðið við allar sínar skuldbindingar gagnvart Atlantshafsbandalaginu vegna vandræða með tækjabúnað. Þjóðverjar gætu þó staðið við sitt í yfirstandandi verkefnum og brugðist við neyðarástandi til skamms tíma, sagði hún við Bild am Sonntag. Hún sagði hins vegar að þýski flugherinn gæti ekki staðið skil á þeim flugvélum og búnaði, sem tilkynnt var fyrir ári að Atlantshafsbandalaginu yrðu til reiðu innan 180 daga í neyðartilfelli.

Gagnrýnin á von der Leyen , sem er kristilegur demókrati (CSU), kemur ekki bara frá stjórnarandstöðunni. Samstarfsflokkur kristilegra demókrata í ríkisstjórn, sósíaldemókratar, hafa einnig gagnrýnt hana.

Nýtur stuðnings Merkel

Angela Merkel kanslari sagði hins vegar á mánudag að von der Leyen nyti fulls stuðnings síns við að leysa úr vanda hersins og auka gagnsæi. „Kröfur til hersins hafa aukist mikið á undanförnum árum,“ sagði hún.

Joachim Krause, öryggissérfræðingur við öryggismálastofnun Háskólans í Kiel, segir hins vegar að staðan á vopnabúnaði hersins sé í molum. Í samtali við AFP hélt hann því fram að Wolfgang Schäuble fjármálaráðherra hefði árum saman „dæmt sambandsherinn til að hætta að vaxa“ og varnarmálaráðherrum hefði ekki tekist að setja fram „hernaðarlega sýn“.

Reyndar má deila um það hvort þýski herinn hafi verið í fjársvelti. Ein ástæðan fyrir því að búnaður hersins er úr sér genginn er að pantanir á nýjum búnaði hafa ekki skilað sér. Transall-vélarnar, sem orðnar eru að táknmynd fyrir vanbúnað hersins, eru frá sjöunda áratug liðinnar aldar. Búið er að panta nýjar vélar hjá Airbus og þær fyrstu átti að afhenda 2010. Ekkert hefur orðið af því, annars vegar vegna vandræðagangs í framleiðslunni og hins vegar vegna þess að löndin, pöntuðu vélarnar, hafa ítrekað komið með nýjar kröfur.

Varnarmál 11% fjárlaga

Von der Leyen hefur sagt að hún þurfi meiri peninga, en það er ekki eina ástæðan fyrir ástandinu. Útgjöld hersins hafa verið minni en gert var ráð fyrir vegna þess að ekki hefur þurft að borga fyrir vopnabúnað, sem ekki hefur verið afhentur. Í fyrra notaði varnarmálaráðuneytið ekki 1,5 milljarða evra af þeim peningum, sem skammtaðir voru á fjárlögum, og búist er við því að umtalsverð fjárhæð verði einnig afgangs á þessu ári. 32,4 milljarðar evra fara í varnarmál eða 11% þýskra fjárlaga.

Bent hefur verið á að þetta afgnagsfé hefði mátt nota til að leigja búnað í stað þess til dæmis að nota úr sér gengnar Transall-vélar, sem með herkjum er haldið gangandi með því að búta hluta vélaflotans niður í varahluti.

Að aðrir beri byrðarnar

Þetta ástand á hernum hefur vakið spurningar um það hvort mesta efnhagsveldi Evrópu geti leyft sér að láta aðra bera byrðarnar og hvort það hafi hernaðarburði til að leggja sitt af mörkum.

„Við ættum að finna til verulegra ónota,“ sagði Harald Kujat, fyrrverandi yfirmaður þýska herráðsins, í samtali við Bild. „Bandamenn okkar fljúga til árása gegn Ríki íslams, eru semsagt í hernaði til að gæta sameiginlegs öryggis okkar, og við erum ekki með. Stærsta hagkerfi Evrópu og ein mikilvægasta þjóðin í NATO getur ekki hegðað sér svona.“

Martin Schäfer, talsmaður utanríkisráðuneytisins, sagði að það væri „þvættingur“ að skuldbindingu Þýskalands við bandalagið gegn Ríki íslams ætti að meta eingöngu út frá því hvort Þjóðverjar tækju þátt í loftárásum.

„Við virðum alla þá sem taka þátt í loftárásunum,“ sagði hann. „En við njótum einnig virðingar og viðurkenningar fyrir það, sem Þýskaland er tilbúið að gera.“

Fælni við hernaðarbrölt

Þýsk stjórnvöld brutu blað þegar þau ákváðu í september að senda vopn til Kúrda í Írak. Arfleiðfð nasismans gerði það að verkum að eftir seinni heimsstyrjöld fóru Þjóðverjar með mikilli gát og sendu ekki herlið út fyrir landsteinana.

Það breytist eftir að járntjaldið féll og hafa þýskir hermenn meðal annars tekið þátt í friðargæslu á Balkanskaga og í Afganistan. Þjóðverjar hafa hins vegar einnig verið gagnrýndir fyrir að halda sig utan átaka, til dæmis í Líbýu.

Vilja láta að sér kveða

Nú er umræða um það í Þýskalandi að Þjóðverjar eigi að láta meira að sér kveða á alþjóðavettvangi. Von der Leyen, Frank-Walter Steinmeier utanríkisráðherra og Joachim Gauck forseti eru meðal þeirra, sem á þessu ári hafa sagt að Þjóðverjar eigi að axla meiri ábyrgð og grípa til vopna ef þess þurfi.

Steinmeier ávarpaði allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna á laugardag og ítrekaði að Þjóðverjar væru reiðubúnir til að axla ábyrgð í og með Sameinuðu þjóðunum til að hjálpa til við að draga úr raunum fólks á átakasvæðum heimsins.

„Bara orð, engar gerðir“

Öryggissérfræðingurinn Krause segir að metnaður þýskra leiðtoga til að láta meira að sér kveða sé „lofsverður“ en gefur til kynna að Þjóðverjar hafi ekki burði til að standa undir honum þrátt fyrir að hafa „einn stærsta her Evrópu“ og bætir við að þetta sé „ekki aðeins vandræðalegt heldur vanræksla“.

Í dagblaðinu Frankfurter Allgemeine Zeitung sagði að ekki væri nóg að Bandaríkjamenn létu að sér kveða þar sem mesta hættan væri á að Ríki íslams léti til skarar skríða í Evrópu þegar flóttamenn og vígamenn sneru aftur heim. „Kveðjur kæru bandamenn! Við fylgjumst með ykkur og á meðan tölum við um hvernig vijð öxlum meiri ábyrgð í heiminum,“ sagði í blaðinu.

Blaðið Bild gekk lengra: „Á skólalóðinni yrði sagt um yfirlýsta stefnu Þjóðverja, bara orð, engar gerðir.“

Heimildir: Der Spiegel, Die Zeit, AFP, Frankfurter Allgemeine Zeitung, Bild.

Transall-vél frá þýska flughernum með lyf, mat og teppi á …
Transall-vél frá þýska flughernum með lyf, mat og teppi á flugvellinumí Arbil á sjálfstjórnarsvæði Kúrda í Írak í ágúst. AXEL HEIMKEN
Ursula von der Leyen, varnamálaráðherra Þýskalands, og Angela Merkel kanslari …
Ursula von der Leyen, varnamálaráðherra Þýskalands, og Angela Merkel kanslari á stjórnarfundi 24. september. Von der Leyen liggur undir ámæli út af hernum, en nýtur stuðnings Merkel. ODD ANDERSEN
Flugvirki skoar hreyfla Transall C-160-vélar á flugvellinum í Arbil í …
Flugvirki skoar hreyfla Transall C-160-vélar á flugvellinum í Arbil í ágúst. Vélarnar eru gamlar og bila iðulega. AXEL HEIMKEN
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert