Unglingar handteknir vegna slátrunarinnar

Úr kjúklingabúi. Myndin er úr safni.
Úr kjúklingabúi. Myndin er úr safni. Árni Sæberg

Fjórir unglingsdrengir hafa nú verið handteknir í Kaliforníu fyrir að hafa brotist inn í kjúklingabú og slátrað þar 920 kjúklingum. Fréttastofan NBC segir frá þessu í dag.

Lögregluyfirvöld í Fresno í Kaliforníu telja að kjúklingunum hafi verið slátrað með golfkylfu og öðrum óþekktum hlut. Ódæðið á að hafa gerst 20. september.

Tveir drengjanna eru 17 ára en hinir 15 og 18 ára.

Kjúklingarnir sem drápust voru metnir á um 5000 bandaríkjadali eða 605 þúsund íslenskar krónur. Fyrirtækið Foster Farms kallaði verknaðinn „svívirðilega grimmd gegn dýrum“. 

Eftir verknaðinn var lýst eftir drengjunum. Lögregla sagði í yfirlýsingu að hún hefði fengið fjölmargar ábendingar sem leiddu til handtöku drengjanna. 

Drengirnir sæta nú gæsluvarðhaldi. Þeir verða líklega ákærðir fyrir innbrot og grimmd gegn dýrum.

Frétt mbl.is: Drápu 900 kjúklinga með golfkylfu

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert