Mótmæltu berbrjósta á Rauðu myllunni

Tveir meðlimir femínistahreyfingarinnar Femen fækkuðu fötum á þaki Rauðu myllunnar - eða Moulin Rouge - í París í dag. Staðurinn er þekktur fyrir fáklæddar dansmeyjar en konurnar úr Femen sýndu sig ekki fyrir pening heldur mótmæltu starfsemi Rauðu myllunnar.

Dagsetningin er engin tilviljun því Rauða myllan fagnar einmitt 125 ára afmæli í dag. Myllan var byggð árið 1889 af Joseph Oller sem fyrir átti annan kabarettstað í París, Paris Olympia. Staðurinn er í 18. hverfinu nálægt Montmartre. 

Konurnar tvær úr Femen klifruðu upp á þak Rauðu myllunnar og afklæddust að ofan. Á brjóst sín höfðu þær málað slagorð á borð við: „Ekki til sölu“. Öryggisverðir voru fljótir til og fjarlægðu konurnar af þakinu. 

Í yfirlýsingu frá Femen eftir mótmælin sagði að konurnar hafi viljað vekja athygli á því að hin svonefndu „rauðu hverfi“ séu lítið annað griðarstaður mansals og þrælahalds. Því verði að breyta.

Frétt mbl.is: Uppselt nánast hvert kvöld alla daga ársins

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert