Franskar vændiskonur mótmæla

Rosen Hicher, 57 ára gömul fyrrverandi vændiskona, lauk í dag 800 kílómetra göngu sinni yfir Frakkland til að krefjast þess að frönsk stjórnvöld standi við það að gera kaup á vændi refsiverð. Mótmælagangan hófst þann 3. september í borginni Saintes, og lauk í París í dag. 

Lagafrumvarp um það að sekta megi vændiskaupendur um allt að 1.500 evrur eða um 220 þúsund krónur, var fellt í júlí af öldungadeild franska þingsins. Lagafrumvarpið var sett fram af efri deild þingsins í desember á síðasta ári, og var innblásið af svipaðri löggjöf í Svíþjóð þar sem vændiskaupendum er refsað í þeim tilgangi að reyna að útrýma starfsstéttinni.

Fjöldi fyrrverandi og núverandi vændiskvenna gekk með Hicher, sem var vændiskona í 22 ár áður en hún hætti árið 2009, og studdu hana. Mótmæltu þær fyrir utan byggingu öldungadeildarinnar og kölluðu til þingmanna að „vakna og fara loks að gera eitthvað.“

Vændi „er ekki réttur, enginn hefur rétt til að kaupa eða selja konu,“ sagði Hicher. „Ef við viljum binda enda á vændi, þá verðum við að refsa kaupendum.“

Gagnrýnendur óttast það að löggjöfin muni gera það að verkum að vændisheimurinn verði enn duldari en hann er, og að vændiskonur verði líklegri til að verða fyrir ofbeldi.

Að borga fyrir, eða taka við greiðslu fyrir vændi er ekki glæpur í Frakklandi. Að selja  einhvern annan í vændi eða að selja einstaklingum undir lögaldri vændi er þó bannað í landinu. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert