Bjuggu við ofbeldið í 26 ár

Norsk yfirvöld brugðust fjölskyldunni segir réttargæslumaður barnanna sex sem bjuggu …
Norsk yfirvöld brugðust fjölskyldunni segir réttargæslumaður barnanna sex sem bjuggu við ofbeldi á heimili sínu í 26 ár. Mynd/AFP

Í 26 ár bjó fjölskyldan við ofbeldi, kúgun og einangrun í Ósló í Noregi. Í apríl var fjölskyldufaðirinn dæmdur í fimm ára fangelsi en í dag hefjast réttarhöld í málinu í hæstarétti. Um er að ræða eitt stærsta heimilisofbeldismál sem hefur komið til kasta norska réttarkerfisins.

Aftenposten fjallar ítarlega um málið í dag en þrátt fyrir ítrekaðar tilkynningar til barnaverndaryfirvalda, árin 2005, 2006, 2008, 2009 og 2012, var ekkert gert, segir réttargæslumaður barnanna, Anita Inga Hessen. Hún segir að ef gripið hefði verið inn þá hefði verið hægt að komast hjá hluta af því ofbeldi sem börnin sex og eiginkonan bjuggu við í 26 ár.

Maðurinn var eins og áður sagði dæmdur í fimm ára fangelsi fyrir ofbeldi gagnvart eiginkonu og sex börnum á 26 ára tímabili í apríl. Hann var jafnframt dæmdur til þess að greiða þeim eina milljón norskra króna í bætur.

Verjandi mannsins, Thor Bache-Wiig, segir að hann hafi ákveðið að áfrýja niðurstöðunni þar sem hann sé saklaus og málið sé runnið undan rifjum eiginkonunnar fyrrverandi.

Samkvæmt frétt Aftenposten fá bæði skólayfirvöld og barnaverndaryfirvöld að finna fyrir því í réttarsalnum, þeirra ábyrgð og aðgerðarleysi. Ef brugðist hefði verið við fyrr hefði mátt bjarga börnunum undan einhverju af þeim þjáningum sem þau þurftu að líða.

Maðurinn beitti börnin og eiginkonuna nánast stöðugu ofbeldi, börnin voru barin, hann hrækti á þau, batt þau við rúmið og beitti þau raflosti. Hann lét þau drekka edik og kvaldi þau. Móðirin þurfti að þola hrottalegar nauðganir og ofbeldi á ýmsan hátt. Hún fékk ekki að umgangast fjölskyldu sína en þegar málið var tekið fyrir í héraðsdómi sagði konan að andlega ofbeldið hefði verið verst. Hann hefði stjórnað henni fullkomlega. Við hverja hún talaði, við hverja hún ræddi í síma og eins stjórnaði hann fjármálum heimilisins. 

Þegar hún reyndi að losna úr hjónabandinu árið 1992 hótaði hann henni að hún myndi aldrei hitta börnin aftur. Hún sneri því aftur inn á heimilið og ofbeldið hélt áfram. Börnin sögðu við réttarhöldin í vor að ef þau báru merki ofbeldisins á líkamanum hefði þeim verið haldið heima þar til sárin hurfu en þetta hefði ekki verið neitt á við andlega ofbeldið.

Árið 2005 fengu kennarar upplýsingar um ofbeldið en gerðu ekkert til þess að aðstoða börnin. Ekki heldur barnaverndaryfirvöld árið 2006 þegar tvö af börnunum flúðu að heiman og tilkynntu lögreglu og barnaverndaryfirvöldum ofbeldið og hótanir sem þau bjuggu við. Máli þeirra var vísað frá. Eftir þetta var haft samband við barnaverndaryfirvöld 2008, 2009 og 2012 vegna tilkynninga um ofbeldi. Ekkert var gert. 

Einn af sonunum greindi frá því að eftir að hann sagði kennara sínum frá ofbeldinu hefði hann verið barinn enn verr.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert