Fleiri hundruð hermenn féllu við Kobane

Yfir 600 hermenn hafa fallið frá því Ríki íslam hófu árás á Kobane fyrir mánuði síðan, samkvæmt upplýsingum frá samtökunum Syrian Observatory for Human Rights.

Samtökin segja að inni í þessari tölu séu ekki þeir liðsmenn Ríki íslam sem hafa látist í loftárásum Bandaríkjahers og bandamanna á og við Kobane. Samkvæmt upplýsingum frá bandaríska varnarmálaráðuneytinu hafa nokkur hundruð vígamenn fallið í þeim árásum.

Frá 16. september og þar til í gærkvöldi höfðu 662 fallið í bardögum á jörðu niðri, segir í tilkynningu frá sýrlensku samtökunum sem starfa í Bretlandi en eru með víðtækt net heimildarmanna í Sýrlandi. Þar á meðal eru tuttugu almennir borgarar. 

Ríki íslam hefur lagt stór svæði í Sýrlandi og Írak undir sig og hafa setið um Kobane í mánuð. Talið er að ef bærinn fellur verði það mikill sigur fyrir íslamistana og stórt skref í sókn sem þeir hófu til að ná löngu belti við landamærin að Tyrklandi á sitt vald.

Yfir 160 þúsund hafa flúið Kobane eftir að Ríki íslam hóf að gera árásir á bæinn. Samkvæmt frétt BBC frá því í morgun hafa liðsmenn samtakanna hopað í hluta Kobane en þeir hafa misst yfirráð yfir um það bil 20% af bænum undanfarna daga en þeir réðu yfir um 40% af Kobane fyrir aðeins nokkrum dögum.
Í gær samþykktu leiðtogar nokkurra af stærstu ríkjum Evrópu og forseti Bandaríkjanna, að meira þurfi að gera til þess að stöðva framsókn Ríki íslam. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert