Í einangrun á lystiskipi

AFP

Heilbrigðisstarfsmaður, sem gæti hafa komist í snertingu við sýni úr fyrsta sjúklingnum sem greindur var með ebólu í Bandaríkjunum, er nú í einangrun á skemmtiferðaskipi. Starfsmaðurinn hefur ekki sýnt nein einkenni sjúkdómsins.

Um er að ræða starfsmann sjúkrahússins í Dallas, Texas. Hann átti ekki í beinum samskiptum við Líberíumanninn Thomas Eric Duncan. Hins vegar er talið mögulegt að hann hafi komist í snertingu við líkamsvessa hans, fyrir nítján dögum. 

Starfsmaðurinn fór um borð í skemmtiferðaskip í Galveston á sunnudag, áður en Smitsjúkdómastofnun Bandaríkjanna hafði samband og bað hann að fylgjast vel með heilsu sinni. Hann er nú í einangrun í káetu um borð í skipinu ásamt ferðafélaga sínum. Skipið er nú á leiðinni í land. Skipið var á leiðinni til Belís.

Tveir hjúkrunarfræðingar sem sinntu Duncan hafa sýkst af ebólu. 4.500 manns í það minnsta hafa látist í Vestur-Afríku af völdum veirunnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert