Jólatré eða kynlífsleikfang?

Nýtt risastórt listaverk eftir bandaríska listamanninn Paul McCarthy á Vendôme-torgi í París hefur valdið miklum vangaveltum meðal gesta og gangandi. Sumum finnst verkið minna á jólatré en aðrir segja það helst líkjast risavöxnu kynlífsleikfangi.

Um er að ræða risavaxinn uppblásinn skúlptúr sem listrænn stjórnandi segir að snúist um fantasíur, en eitthvað virðist það misjafnt hvaða fantasíur koma upp í huga fólks þegar það horfir á verkið.

Verkið, sem einfaldlega nefnist Tré, er sett upp í tilefni af FIAC-listaverkakaupstefnunni í París í næstu viku.

McCarthy, sem er ekkert óvanur því að vekja athygli og umtal fyrir verk sín, gerði Tréð sérstaklega fyrir FIAC.

Öfgahreyfingin Printemps Francais, sem er andsnúin hjónaböndum samkynhneigðra, hefur kvartað harkalega yfir verkinu á Twitter. „Skattgreiðendur, nú sjáið þið í hvað peningarnir ykkar fara,“ skrifar liðsmaður í hreyfingunni. Annar segir að París hafi verið niðurlægð og torgið afskræmt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert