Báðust afsökunar í heilsíðuauglýsingu

Sjúkrahúsið sem um ræðir heitir Presbyterian og er í Dallas.
Sjúkrahúsið sem um ræðir heitir Presbyterian og er í Dallas. AFP

Sjúkrahúsið í Dallas, þar sem einn hefur látist úr ebólu og tveir hjúkrunarfræðingar smitast, baðst í dag afsökunar í heilsíðuauglýsingu. „Við gerðum mistök, okkur þykir það leitt, við ætlum að bæta okkur,“ stendur í auglýsingunni.

Málið hófst á því að Líberíumaður sem kom veikur á sjúkrahúsið var sendur heim án þess að gengið væri úr skugga um hvort hann væri með ebólu. Hann var síðar fluttur aftur á sjúkrahúsið þar sem hann lést skömmu síðar.

Tveir hjúkrunarfræðingar sem hlúðu að manninum hafa nú greinst með ebólu. Talið er hugsanlegt að mistök hafi verið gerð í öryggisbúnaði, t.d. að konurnar tvær hafi sýkst við að fara í og úr hlífðarfatnaði.

Sjúkrahúsið hefur nú viðurkennt að ekki var hlustað nægilega vel á Thomas Eric Duncan sem hafði verið í Líberíu og sýkst af veirunni þar. Hann var sendur heim með sýklalyf. Viðbrögð spítalans hafi því ekki verið rétt og samkvæmt reglum.

„Sem stofnun gerðum við mistök við meðhöndlun okkar á þessu krefjandi máli,“ skrifar Barclay Berdan, stjórnarformaður sjúkrahússins, í grein í Dallas Morning News í dag, að því er fram kemur í frétt CNN. „Sjúkrahúsið er nú að greina mistökin og mun gera breytingar.“

Frétt CNN.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert