Mikilvægar birgðir farnar að berast

Heilbrigðisstarfsmaður í Líberíu sést hér halda á ungbarni sem er …
Heilbrigðisstarfsmaður í Líberíu sést hér halda á ungbarni sem er smitað af ebólu í Monróvíu, höfuðborg Líberíu. AFP

Mikilvægar birgðir og hjálpargögn í baráttunni við ebóluveiruna eru farin að berast til landanna þriggja í Vestur-Afríku sem faraldurinn hefur leikið verst. Þetta segir John Mahama, forseti Gana. 

Mahama er formaður ECOWAS, sem er efnahagsbandalag Vestur-Afríkuríkja. Hann sagði í samtali við breska ríkisútvarpið, að verið sé að setja upp sjúkraaðstöðu í Gíneu, Líberíu og í Síerra Leóne. Þá hvetur hann hjálparstofnanir til að samhæfa sig betur til að forðast tvíverknað. 

Yfir 4.500 hafa látist af völdum ebólu; yfirgnæfandi meirihluti í ríkjunum þremur. Talið er að um 70% þeirra sem hafa smitast hafi látist.

Fyrr í dag greindi Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin frá því að Nígería væri laus við ebólu, en engin ný tilfelli hafa greinst í landinu undanfarnar sex vikur. Í síðustu viku var greint frá því sama í Senegal. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert