Nígería laus við ebólu

Nígería er laus við ebólufaraldurinn en engin ný smit hafa greinst í landinu frá 5. september eða í sex vikur. Skjót viðbrögð stjórnvalda í Nígeríu vöktu athygli þegar fyrsta ebólusmitið greindist í landinu í júlí og er talið að þeim megi þakka að ebóla fyrirfinnst ekki lengur í þessu fjölmennasta ríki Afríku.

Það var ríkiserindreki frá Líberíu sem bar sjúkdóminn til Nígeríu í júlí en alls eru yfir 4.500 látnir úr sjúkdómnum. Flestir þeirra í Líberíu, Gíneu og Síerra Leone. Talið er að 70% þeirra sem hafa sýkst í þesum löndum hafi látist.

Á föstudag var Senegal lýst ebólulaust af Alþjóðaheilbrigðisstofnuninni (WHO) en ef engin ný smit greinast á sex vikna tímabili, það er tvöföldum meðgöngutíma sýkingar, er landið lýst laust við ebólu.

Samkvæmt BBC var lýst yfir neyðarástandi á heilbrigðissviði í landinu þegar ljóst var að ebóla var komin til landsins en alls létust átta úr sjúkdómnum í Nígeríu.

Í gær var tilkynnt að spænski hjúkrunarfræðingurinn, sem var sá fyrsti til að smitast utan Vestur-Afríku, væri laus við ebólu. Á sama tíma sendi forseti Líberíu út neyðarkall þar sem óskað var eftir aðstoð alþjóðasamfélagsins.

Teresa Romero, sem var lögð inn á sjúkrahús í Madríd smituð af ebólu hinn 6. október, fór um helgina í rannsóknir og niðurstaða þeirra er sú að hún sé laus við ebóluna.

AFP
AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert