Starfsmaður SÞ lést af völdum ebólu

Yfir 4.500 hafa látist af völdum ebóluveirunnar í V-Afríku.
Yfir 4.500 hafa látist af völdum ebóluveirunnar í V-Afríku. AFP

Starfsmaður Sameinuðu þjóðanna í Síerra Leóne hefur látist af völdum ebólu, en þetta er þriðji starfsmaður SÞ sem veiran hefur dregið til dauða.

Stephane Dujarric, talsmaður SÞ, segir að maðurinn sem lést hafi verið ökumaður fyrir UN Women. Hann lést um helgina í Síerra Leóne. Maki hans veiktist einnig og hlýtur hún nú meðhöndlun. 

„Gripið hefur verið til allra mögulegra úrræða miðað við aðstæður til að vernda starfsfólk á starfsstöðinni í Síerra Leóne,“ segir Dujarric.

Súdanskur maður sem starfaði fyrir SÞ sem heilbrigðisstarfsmaður í Líberíu lést í Þýskalandi í siðustu viku en Líberíumaður lést af völdum ebólu í síðasta mánuði.

Yfir 4.500 hafa látist í ebólufaraldrinum í Vestur-Afríku, en hann er sá versti í sögunni. SÞ fara fyrir aðgerðum sem hafa það markmið að hefta útbreiðslu faraldursins. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert