17 ára hótaði forsætisráðherra

Tony Abbott, forsætisráðherra Ástralíu.
Tony Abbott, forsætisráðherra Ástralíu. AFP

Unglingsdrengur sem fór frá heimili sínu í Ástralíu til þess að berjast með vígamönnum í Írak og Sýrlandi hefur nú birst mörgum mánuðum síðar í myndbandi Ríki íslams.

Í myndbandinu hét hann því að halda áfram að berjast.

Unglingsdrengurinn er 17 ára gamall og kallaður Abdullah Elmir í fjölmiðlum. Hann kallar sig þó Abu Khaled. Í myndbandinu heldur hann á riffli og talar til forsætisráðherra Ástralíu Tony Abbot.

„Við Tony Abbott vil ég segja þetta. Þessi vopn sem við höfum og þessir hermenn, við munum ekki hætta að berjast,“ sagði Elmir en fjölskylda hans býr í Bankstown, úthverfi Sydney.

„Við munum ekki leggja niður vopn fyrr en við náum landsvæði ykkar, afhöfðum hvern einasta harðstjóra og að svarti fáninn sé við hún í hverju landi.“

Vísar Elmir þá í fána Ríkis íslams.

Talsmaður forsætisráðherrans sagði í yfirlýsingu að myndbandið sýndi vel þá ógn sem stafar af Ríki íslam. „Eins og forsætisráðherrann hefur sagt þá eru samtökin ógn sem breiðir úr sér til Ástralíu og til allra bandamanna okkar. Það er þess vegna sem Ástralía hefur tekið þátt í árásum til þess að reyna að stöðva samtökin í Írak,“ kom m.a. fram í yfirlýsingunni.

Ástralía hefur nú aukið varúðarráðstafanir sínar vegna hryðjuverka. Nokkrir menn voru handteknir í landinu í september fyrir að skipuleggja sendingu á mönnum frá Ástralíu til þess að berjast í Sýrlandi.

Elmir yfirgaf heimili sitt í júní og sagði fjölskyldu sinni að hann væri að fara að veiða. Síðar hringdi hann í móður sína og sagðist vera í Tyrklandi, við það að fara yfir landamærin til Sýrlands. 

Unglingsdrengurinn fór frá Ástralíu ásamt 16 ára dreng sem var kallaður Feiz. Faðir hans fann hann og fór með hann aftur til Ástralíu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert