300 veiktust vegna núðlusúpu

Næstum því 300 manns veiktust eftir að hafa borðað núðlusúpu í trúlofunarveislu í Kambódíu á sunnudaginn.

Fólkið þjáðist af bæði uppköstum og niðurgangi eftir veisluna sem haldin var í afskekktu þorpi í héraðinu Kampong Thom.

Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni voru það aðallega börn sem veiktust en einnig ólétt kona. Hún veiktist svo að læknar ákváðu að framkalla fæðingu tvíbura sem hún gekk með. Þeir fæddust heilbrigðir.

Flest fórnarlömb matareitrunarinnar eru enn á sjúkrahúsi. „Margir tóku núðlur úr veislunni heim til barna sinna og ættingja og þess vegna veiktust svona margir,“ sagði lögreglumaður á svæðinu. 

Verið er að rannsaka núðlurnar, en samkvæmt frétt AFP er lítið um matvælaeftirlit í Kambódíu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert