Ætlaði að stækka vöðvana aðeins

Morten Heierdal
Morten Heierdal Ærlig talt

Norski íþróttamaðurinn Morten Heierdal byrjaði að nota stera þegar hann fór úr unglingaflokki í fullorðinsflokk í knattspyrnu sextán ára. Hann fann að hafði ekki roð við þeim stærri og sterkari og ætlaði að bæta stöðu sína. Við tók tíu ára barátta við dópið en undir það síðasta var það kókaínið sem réð ferðinni. 

Í kvöld ætlar Heierdal að ræða við íþróttafólk, þjálfara og foreldra í Varhaug-íþróttahöllinni í úthverfi Stavanger um hvað dóp getur gert ungu fólki, bæði líkamlega og andlega. 

Heierdal er 32 ára gamall og starfar með samtökunum Antidoping Norge og Ærlig talt-kampanjen. Hann segir í viðtali við Aftenposten að það komi honum ekki á óvart hversu víðtækt eiturlyfjavandamálið er í Noregi, hvorki aldur né fjöldi þeirra sem nota eiturlyf. Hann var sjálfur í þessum sporum í tíu ár. 

Baráttan sé hörð í heimi íþrótta og margir vilji stytta sér leiðina í átt að árangri til þess að verða stærri og sterkari. En hann segir að það hættulega sé og það hafi komið honum mjög á óvart hversu margir þjálfarar vita lítið um neyslu ungs íþróttafólks.

Heierdal var efnilegur knattspyrnumaður á sínum yngri árum. Frá sautján ára til 27 ára fyllti hann líkama sinn af dópi. Fyrst voru það sterar en síðan tók kannabis við og að lokum kókaínið. Hann var alsæll í upphafi neyslunnar enda fannst honum hann geta allt. Hann væri kóngurinn. En síðan tóku aukaverkanir við - miklar breytingar á andlegu atgervi. Hann segist hafa orðið árásargjarn, fáránlega afbrýðisamur og áhættusæknari en áður. Eins tók líkami hans breytingum, til að mynda fékk hann brjóst líkt og kona og líf hans fór fljótlega niður á við.

Hann hafi átt erfitt með að koma sér á fætur á morgnana og sá engan tilgang með lífinu. Til þess að geta sofið á nóttunni reykti hann kannabis og svo voru það sterar á daginn. En þegar þetta hætti að virka þá fór hann að sniffa kókaín. Að lokum tók við skelfilegur tími við að reyna að losa sig úr ánauð fíknar og vistun í fangelsi fyrir tvær alvarlegar líkmasárásir. Rúmt ár er liðið frá því hann losnaði úr fangelsi. 

Hann segist sjá eftir mörgu og einkum því hversu margir sem höfðu ekki gert honum neitt urðu fórnarlömb árásargirni hans og andlegu ójafnvægi samfara neyslunni. „Þessi algera breyting á persónuleika er það skelfilegasta við eiturlyfjaneysluna. Ég varð algjörlega annar á stuttum tíma,“ segir Heierdal í viðtali við Aftenbladet.

Þrátt fyrir að hafa eignast dóttur fyrir níu árum þá breytti það engu. En þegar hún var fjögurra ára spurði hún pabba sinn hvers vegna hann væri alltaf svona reiður við mömmu og alla aðra. Þá gerðist eitthvað innra með Heierdal.

Hann lýsir því þegar hann er að fá sér kókaín í vinnunni og sú hugsun hafi komið upp í huga hans um hvað í fjáranum hann væri að gera. Hann hafi því farið til yfirmanns síns, sett kókaín koa á borðið og sagt: „hér er mitt vandamál.“

Í kjölfarið fór hann í meðferð og í dag þakkar hann þessari ákvörðun það að hann sé einfaldlega á lífi.

Aftenposten

Antidoping Norway

Ærligt talt

Moss avis

NRK

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert