Hafa dregið játningar til baka

Hannah Witheridge og David Miller voru myrt í Taílandi í …
Hannah Witheridge og David Miller voru myrt í Taílandi í september. AFP

Mennirnir tveir sem játað höfðu morðin á bresku bakpokaferðalöngunum Hönnu Witheridge og David Miller hafa dregið játningar sínar til baka. Þetta er haft eftir lögfræðingum mannanna á vef breska ríkisútvarpsins í dag.

Mennirnir, Zaw Lin og Win Zaw Htun sem eru frá Búrma, segjast ekki hafa framið morðin og ekki hafa séð hvað átti sér stað. Lögreglan í Taílandi hefur sagst hafa sterkar sannanir fyrir því að mennirnir tengist morðunum á ferðamönnunum sem voru myrt á eyj­unni Koh Tao í sein­asta mánuði. 

Lin og Htun hafa ítrekað haldið því fram að lögregla hafi beitt þá ofbeldi til að fá þá til að játa brotin. Lögreglan tjáði sig um málið fyrir nokkru og neitaði því að ofbeldi hefði verið beitt. Starfsmenn Mannréttindaskrifstofu Taílands sögðu hins vegar í gær að sannanir hefðu fundist sem styddu frásögn Lin og Htun.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert