Keyrði skólabíl drukkinn

AFP

Bílstjóri sem keyrir skólabíl í Massachusetts í Bandaríkjunum hefur verið ákærður fyrir að keyra undir áhrifum áfengis, og það í þriðja skipti. Maðurinn var að keyra rútu fulla af menntaskólanemum þegar hann var tekinn.

Einn farþeganna í bílnum, íþróttaþjálfari nemendanna, hafði samband við lögreglu og sagðist hafa áhyggjur af því að bílstjórinn gæti verið drukkinn. 

Lögregla mætti rútunni þegar henni var beygt inn á bílastæði skólans. Bílstjórinn, sem heitir Robert Murphy og er 59 ára gamall, var látinn blása í áfengismæli og var í kjölfarið handtekinn fyrir að keyra undir áhrifum áfengis. Þá var hann ákærður fyrir að setja farþega í mikla hættu. 

Íþróttaþjálfarinn, Jennifer Fairbanks, sagði í samtali við CBS-fréttastofuna að Murphy hefði keyrt mjög glannalega. „Ég lagði saman tvo og tvo,“ sagði Fairbanks. „Tilhugsunin gerir mig ennþá stressaða.“

Fairbanks segist hafa haft samband við lögreglu án þess að láta nemendurna vita að eitthvað væri að. „Ég var bara í beinu sambandi við lögregluna,“ sagði hún. „Það eina sem ég hugsaði um var öryggi krakkanna í rútunni.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert