Danskt bóluefni við ebólu

AFP

Danska líftækni fyrirtækið Bavarian Nordic mun vinna með belgíska lyfjafyrirtækinu Janssen Pharmaceutica að bóluefni gegn ebólu í mönnum. Tilkynnt var um samning fyrirtækjanna í dag.

Samkvæmt Extra Bladet hafa tilraunir með bóluefninu á dýrum gefist afar vel og virðist það raunar veita fulla vernd gegn veirunni. 

„Staðan í Vesur Afríku kallar á tafarlausar aðgerðir, jafnt frá yfirvöldum sem og lyfjaiðnaðinum, og við erum afar glöð að geta unnið með Janssen að þróun og framleiðslu bóluefnis sem getur gagnast gegn ebólu-faraldrinum,“ segir Paul Chaplin, framkvæmdastjóri Bavarian Nordic.

Janssen Pharmaceutica er í eigu bandaríska lyfjafyrirtækisins Johnson & Johnson og segir The Wall Street Journal fyrirtækið stefna að fyrstu tilraunum á mannfólki í janúar. Eins telur fyrirtækið að hægt verði að hafa um 250 þúsund skammta tilbúna í maí, telji heilbrigðisyfirvöld bóluefnið öruggt.

Stefnt er á að prófa bóluefnið á 600 sjálfboðaliðum í Evrópu og Afríku. Meðferðin samanstendur raunar af tveimur bóluefnum, einu sem framleitt er af Janssen og öðru sem framleitt er af Bavarian Nordic. Þegar bóluefnin voru prófuð á dýrum var þeim gefin fyrri sprautan tveimur mánuðum á undan þeirri seinni en stefnt er á að stytta tímann milli sprauta niður í tvær vikur í prófunum á mönnum.

Johnson & Johnson hefur fjárfest um 1,1 milljarð danskra króna í verkefninu og mun stórum hluta þess fjármagns ætlað að efla getu Bavarian Nordic til framleiðslu á sínum hluta bóluefnisins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert