Ebólu-baráttu hvergi nærri lokið

AFP

Það tekur fjóra mánuði hið minnsta að hefta útbreiðslu ebólu-faraldsins jafnvel þótt gripið verði til allra nauðsynlegra aðgerða. Þetta segir yfirmaður Rauða krossins en hann varar við afleiðingunum ef ekki verði brugðist við faraldrinum af fullum þunga.

Yfir 4.500 eru þegar látnir úr ebólu og er óttast að allt að tíu þúsund manns geti smitast í hverri viku ef ekki verði gripið til aðgerða.

Ekki er til neitt skráð bóluefni við ebólu en auk faraldurs í Vestur-Afríku hafa komið upp nokkur smit meðal heilbrigðisstarfsmanna í Bandaríkjunum og Spáni.

Elhadj As Sy, yfirmaður Rauða krossins, kynnti í dag mögulegar aðgerðir gegn faraldrinum. Svo sem bætt einangrunaraðstaða, bætt meðferðarúrræði í þeim tilvikum sem staðfest er að um ebólu sé að ræða og að þeir sem deyja af völdum sjúkdómsins verði brenndir. Hann segir að verði þetta gert þá sé mögulegt að hefta útbreiðslu sjúkdómsins á fjórum til sex mánuðum.

Frá og með deginum í dag verða farþegar sem koma með flugi til Bandaríkjanna frá Líberíu, Síerra Leóne og Gíneu beint á fimm flugvelli þar sem þeir þurfa  að gangast undir læknisrannsókn. Aftur á móti benda sérfræðingar á í grein sem þeir rita í The Lancet í gær að það sé mun skynsamlegra og áhrifaríkara að rannsaka flugfarþega áður en þeir fara um borð í flugvélar heldur en þegar þeir lenda í öðru landi.

Vonir standa til að hægt verði að byrja að bólusetja við ebólu í janúar á næsta ári en unnið er að því hörðum höndum að þróa bóluefni við sjúkdómnum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert