Pistorius hugsanlega í stofufangelsi

Oscar Pistorius þarf aðeins að afplána tíu mánuði af fimm ára fangelsisdómi sínum í fangelsi, samkvæmt þeim lögum sem hann var dæmdur út frá. Í kjölfarið er hann líklega í stofufangelsi.

Suðurafrískir lögfræðingar telja þó að um þetta þurfi að semja, verjendur Pistorius geti ekki gengið út frá því að hann þurfi aðeins að vera bak við lás og slá í tíu mánuði og geti þá farið í stofufangelsi, væntanlega á heimili sínu.

Dómarinn lagði ríka áherslu á það við uppkvaðninguna í gær að hún vildi ná fram „jafnvægi“ í niðurstöðu sinn. Hún sagði að langur dómur myndi sýna miskunnarleysi en stuttur senda „röng skilaboð“ til samfélagsins.

„Það væri sorgardagur í þessu landi ef skilaboðin væru þau að það gilti annað um þá fátæku en þá ríku og frægu,“ sagði dómarinn, Thokozile Matilda Masipa.

Fjölskylda Reevu Steenkamp, unnustu Pistorius sem hann skaut til bana og var dæmdur fyrir, segist sátt við niðurstöðu dómarans. Fjölskyldan sagðist ekki hafa áhuga á að áfrýja dómnum.

„Leyfið okkur að halda lífi okkar áfram,“ sagði Arnold Pistorius, frændi spretthlauparans, í yfirlýsingu sem hann sendi fyrir hönd fjölskyldunnar. Orðunum var beint að fjölmiðlum. „Og sýnið okkur virðingu og virðið einkalíf okkar.“

Heimsbyggðin fylgdist grannt með réttarhöldunum yfir Pistorius, sem stóðu í sjö mánuði. Þar fékk hún að heyra að á valentínusardag í fyrra, árið 2013, hefði Pistorius vaknað í rúmi sínu og talið sig hafa heyrt í innbrotsþjófi. Hann sagðist hafa farið, án gervifóta sinna, inn á baðherbergi. Hann hefði verið vopnaður og skotið í gegnum klósetthurðina. Hann hélt innbrotsþjóf vera þar inni. En það var rangt. Inni var kærastan, fyrirsætan Reeva Steenkamp.

Fjölmörg vitni voru leidd fyrir dóminn, m.a. nágrannar sem sögðust hafa heyrt hávært rifrildi frá húsi Pistorius fyrr um kvöldið. Þá sögðu aðrir frá því að Pistorius hefði verið byssuglaður og taugaveiklaður.

Það var því aldrei deilt um það hvort Pistorius hefði skotið kærustu sína. Það viðurkenndi hann strax. Hins vegar var spurningin: Gerði hann það viljandi?

Dómarinn dæmdi Pistorius ekki fyrir morð að yfirlögðu ráði. Hins vegar sagði hún hann hafa verið óvarlega með skotvopn. Hann var því dæmdur fyrir manndráp af gáleysi. Og fékk fimm ára dóm.

Hann hóf afplánun í gær, sama dag og dómurinn var kveðinn upp.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert