Konur að brjóta ísinn í Pakistan

Hópur ungra kvenna situr á gólfinu og hlustar á kennarann sem undirbýr þær undir það að klifra hæstu tinda heims. Í Pakistan eru konur að hefja störf í atvinnugreinum sem áður tilheyrðu körlum - smíðar og fjallaleiðsögn.

Ungu stúlkurnar eru nemendur í Shimshal fjallgönguskólanum þar sem kennslan fer fram í fjallahéruðum Pakistan skammt frá landamærum Kína.

Á fjölmörgum stöðum í Pakistan eiga konur ekki möguleika á að sækja nám í greinum sem karlmenn hafa verið alls ráðandi en í Hunza héraði hafa konur á meiri möguleika á starfs- og námsframa en víðast hvar í landinu. 

Nú eru konur í héraðinu farnar að færa sig inn á fleiri svið en áður og eru farnar að læra trésmíði og fjallaleiðsögn.

Þið verðið að fara varlega og fara vel yfir búnaðinn áður en lagt er af stað því minnsta skemmd í línu getur kostað ykkur lífið, segir Niamat Karim kennari í fjallamennsku.

Ungu konurnar sem eru að ljúka námi hafa síðustu fjögur árin lært allt sem hægt er að læra um ís- og klettaklifur, björgun og ferðamennsku. Skólinn er í 3.100 metra hæð og þar til fyrir 11 árum var ófært á þessar slóðir nema á vel útbúnum jeppum.

Þarna er ekkert rennandi vatn og rafmagn er af skornum skammti, einungis í gegnum sólarrafhlöður sem koma frá Kína. En þrátt fyrir einangrun er læsi mun meira en gengur og gerist annars staðar í Pakistan eða 98%. 

Þaðan koma margir af frægustu klifrurum heims, þar á meðal  Samina Baig, sem var fyrsta pakistanska konan sem komst á tind Everest.

Konurnar átta hafa farið á flest fjöll í nágrenninu og að sögn Takht Bika, sem er 23 ára, þá er skólagangan draumur sem varð að veruleika. „Frændi minn og bróðir eru fjallgöngumenn og ég var vön að bíða eftir þeim þegar þeir sneru til baka úr fjallgöngum,“ segir Bika í viðtali við AFP.

„Ég lék mér með fjallgöngubúnaðinn þeirra en það voru leikföngin í minni barnæsku. Ég átti aldrei dúkku.“

The Express Tribune

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert