Staðfest að játningar hafi verið dregnar til baka

Tveir farandverkamenn frá Búrma sem hafa verið sakaður um að hafa myrt tvo breska ferðamenn á taílensku eyjunni Koh Tao hafa dregið játningar sínar til baka. Þetta staðfestir taílenska lögreglan.

Að sögn lögfræðinga þeirra bera þeir því við að hafa verið pyntaðir af lögreglu við yfirheyrslur vegna morðanna.

Zaw Lin og Win Zaw Tun eru ákærðir fyrir að hafa myrt David Miller, 24 ára, og nauðgað og myrt Hannah Witheridge, 23 ára, en lík þeirra fundust á strönd eyjunnar í síðasta mánuði. Ljóst var að þeim hafði verið misþyrmt.

Afturköllun játningarinnar er enn eitt áfallið fyrir taílensku lögregluna en hún hefur verið harðlega gagnrýnd fyrir slælega framgöngu við rannsókn málsins og háværar ásakanir hafa verið um að farandverkamennirnir séu hafðir fyrir rangri sök.

Verjandi þeirra segir að skjólstæðingar hans hafi hvorki komið nálægt morðunum né málinu á nokkurn hátt. Þeir hafi hinsvegar verið pyntaðir. 

Taílensk yfirvöld hafa harðlega neitað því að tvímenningarnir séu blórabögglar í málinu og segja að ákæran byggi á skotheldum sönnunargögnum, svo sem að lífsýni úr þeim hafi fundist í líkama Witheridge. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert