„Talnagengi“ með Pistorius í fangelsi

Oscar Pistorius á leið í fangelsið eftir að dómurinn var …
Oscar Pistorius á leið í fangelsið eftir að dómurinn var kveðinn upp í gær. AFP

Suður-afríski spretthlauparinn Oscar Pistorius er kominn í fangelsi en í sama fangelsi er m.a. að finna meðlimi svokallaðra talnagengja, glæpagengja sem kenna sig við ákveðin númer: 26, 27 og 28.

Meðlimir þessara gengja ráða lögum og lofum í suður-afrískum fangelsum, að því er fram kemur í fréttaskýringu um málið á vef Sky. Þeir hafa m.a. orðið uppvísir að hótunum um kynferðisofbeldi og beitt alvarlegu líkamlegu ofbeldi.

„Pistorius, sem er í fangelsi fyrir að skjóta kærustu sína Reevu Steenkamp til bana, verður að vera fljótur að læra á mannfræði myrkustu horna fangelsisins,“ skrifar Sam Kiley, blaðamaður Sky um málið.

„Það gæti verið spurning um líf eða dauða.“

Verjendur Pistorius segja að spretthlauparinn hafi þegar fengið morðhótun frá þeim sem fer genginu 26. Sá er morðingi og afplánar nú 33 ára fangelsisdóm.

Í hótuninni sagði m.a. að ef Pistorius fengi einhverja sérmeðferð í fangelsinu yrði hann drepinn.

Blaðamaður Sky segir að hugsanlega hafi þetta verið sett fram af verjendunum til að reyna að fá því framgengt að Pistorius þurfi ekki að dvelja í einu stærsta fangelsi Suður-Afríku. „En þetta gæti líka verið raunveruleg hætta,“ skrifar blaðamaður.

Blaðamaðurinn veltir því líka fyrir sér hvort að Pistorius þurfi að leita verndar einhverra af talnagengjunum. 

Fréttaskýring Sky.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert