Afgreitt sem sjálfsvíg en reyndist morð

Norska lögreglan er harðlega gagnrýnd fyrir að hafa afgreitt málið …
Norska lögreglan er harðlega gagnrýnd fyrir að hafa afgreitt málið sem sjálfsvíg Wikipedia

Átta ára norsk stúlka fannst látin með belti um hálsinn fyrir tæpum þremur árum og afgreiddi lögreglan málið sem sjálfsvíg. Á mánudag var fyrrverandi stjúpfaðir hennar handtekinn og ákærður fyrir að hafa myrt stúlkuna. 

Það var móðir Moniku Sviglinskaja sem fann dóttur sína látna í íbúð þeirra haustið 2011. Stjúpfaðirinn, sem er frá Litháen, var meðal þeirra sem var yfirheyrður sem vitni í málinu á sínum tíma en hann átti að baki þungan dóm í heimalandinu fyrir grófa líkamsárás.

Aftenposten ræðir í dag við Willy-Tore Mørch sem er prófessor í geðlækningum við háskólann í Tromsø með sérhæfingu í geðheilsu barna og unglinga. Hann segir það ótrúlegt að lögregla hafi afgreitt málið sem sjálfsvíg en hann hefur aldrei áður heyrt um að átta ára gamalt barn hafi framið sjálfsvíg og segist efast um að svo ungt barn sé fært um að skipuleggja og framkvæma.

Á síðustu 25 árum hafa verið skráð þrjú sjálfsvíg barna yngri en tíu ára í Noregi. Árið 1992, 2003 og 2011. Nú eru þau einungis tvö þar sem í ljós hefur komið að Monika framdi ekki sjálfsvíg heldur var hún myrt.

Að sögn lögreglu hafa nýjar aðferðir gert það að verkum að hægt var að greina lífsýni úr manninum á beltinu sem stúlkan fannst hengd í. Á beltinu fundust lífsýni úr stúlkunni og á sínum tíma óþekktum einstakling sem nú hefur tekist að greina. 

Maðurinn, sem er 32 ára að aldri, var handtekinn á vinnustað sínum í Bergen á mánudag. Hann neitar sök, að sögn lögfræðings hans.

Hann og móðir stúlkunnar kynntust í gegnum stefnumótavef í apríl 2011 og fljótlega flutti hann inn í  íbúð þeirra mæðgna í bænum Steinsland í Sund-héraði. Hann flutti hins vegar út úr íbúðinni nokkrum vikum áður en stúlkan lést og nefndi móðirin hann við lögreglu þegar andlát Moniku var til rannsóknar. Taldi hún rétt að að rannsaka hann betur. Lögreglan brást við því með að kalla hann til sem vitni. Samkvæmt fréttum norskra fjölmiðla á hann að hafa brostið í grát þegar lögregla tjáði honum að fyrrverandi stjúpdóttir hans væri látin. 

Sætir lögreglan nú harðri gagnrýni í norskum fjölmiðlum hvers vegna rannsókn á andláti stúlkunnar hafi verið hætt fljótlega og málið ekki rannsakað frekar og segja sérfræðingar að það hefði átt að vera hægt að finna út miklu fyrr hver átti lífsýnið sem fannst á beltinu.

Fjórum mánuðum eftir lát Moniku fékk móðir hennar skilaboð á Facebook þar sem manneskja skrifar á litháensku að hún viti hver morðinginn sé. Móðirin lét lögreglu strax vita og bendir á fyrrverandi sambýlismann enda sé talað um ilmvatn hennar og skartgripi í færslunni - eitthvað sem fáir aðrir en hann viti um.

Nýjasta umfjöllun Aftenposten

Leiðari Bergens Tidende 

Nýjasta umfjöllun Bergens Tidende

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert